140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki nein undirskrift við Alþjóðabankann sem ég var að lýsa áðan heldur undirritun viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 16. ágúst sl. sem fól í sér fyrirheit um að Fjármálaeftirlitið fái fullnægjandi tekjur til að tryggja að það geti innt skyldur sínar af hendi með árangursríkum hætti, samanber 4. lið 13. töluliðar þeirrar yfirlýsingar. Hún hefur löngu verið birt opinberlega og hefur aldrei verið neitt leyndarmál.

Ég var að lýsa hér áðan ágreiningi milli fjármálaráðuneytisins og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um fyrirkomulag fjárveitinga til Fjármálaeftirlitsins. Við leituðum meðal annars eftir áliti ríkislögmanns sem komst að tiltekinni niðurstöðu um að ekki væri hægt að hrófla við niðurstöðu löggjafans um fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins eins og þær koma frá honum í samræmi við löggjöf um fjárveitingar til fjármálaeftirlits. Fjármálaráðuneytið er annarrar skoðunar, eins og kemur fram í kostnaðarmati við frumvarpið um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit, sem ég mæli fyrir á fimmtudaginn. Þannig er það mál vaxið.