140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég byrja á því að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín varðandi landshlutaskógana. Eins og glöggt kemur fram í breytingartillögum meiri hluta fyrir 3. umr. er fallið frá frekari niðurskurðarkröfu á þá skóga.

En ég fann mig eiginlega knúna til að koma hingað upp, herra forseti, því að hv. þingmaður talaði um niðurskurð í viðkvæmum málaflokkum. Hann talaði um niðurskurð í heilbrigðismálum og fræðslumálum, almannatryggingum og velferðarmálum. Mig langar að nefna hér löggæslu- og öryggismál og samgöngumál. Þetta eru fimm málaflokkar sem eru gríðarlega mikilvægir í öllum samfélögum. Þessir fimm málaflokkar taka um 60% af útgjöldum ríkissjóðs. Þar af leiðir að þegar við erum með skuldir sem kosta okkur 78 milljarða kr. í vaxtagjöld á ári hverju verðum við að fara inn í þessa málaflokka og skera.

Það kann vel að vera að tillögurnar sem fram komu í frumvarpinu hafi ekki verið nógu fullkomnar, enda kom það í ljós. En ég tel að við hér á þinginu ættum að fagna þeirri vinnu sem velferðarráðherra lagði í og lagði á borðið fyrir þingheim umbúðalaust, því að þegar við erum að berjast við vaxandi skuldir vegna hallareksturs verðum við að fara í stífa forgangsröðum því að annars endum við í stöðu eins og Ítalía og Grikkland þar sem þarf að fá bírókrata til þess að koma og taka stjórn á hlutunum því að stjórnmálamenn þorðu ekki að fara í þær aðgerðir sem nauðsynlegar voru til þess að koma skikki á hlutina.

Ég spyr því hv. þingmann hvort hann telji það í raun maklegt (Forseti hringir.) að átelja það að skorið sé niður í þessum málaflokkum.