140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

breytingar á ráðuneytum.

[15:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrr á þessu ári var til umfjöllunar og afgreiðslu á þinginu frumvarp frá forsætisráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu þar sem færa átti miklar heimildir til forsætisráðherra til að hlutast til um skipan ráðuneyta, fjölda þeirra og verkefni þeirra í milli. Undanfarnar vikur hefur sú umræða verið mjög uppi á borðum, bæði í þinginu og í fjölmiðlum, um það hvar eigi með réttu að vista efnahagsmálin eða hvort yfir höfuð komi til greina að þau séu jafnvel hjá einum ráðherra sem jafnframt fari með annan málaflokk.

Ég beini til hæstv. forsætisráðherra þeirri fyrirspurn hvort hún telji koma til greina að einn og sami ráðherrann fari með efnahagsmálin og segjum til að mynda fjármálaráðuneytið eða hvort efnahagsmálin séu málaflokkur sem að hennar áliti sé það stór og mikilvægur að hann þurfi áfram að vera í sérstöku ráðuneyti með sérstökum ráðherra. Það er ástæða til að spyrja að þessu miðað við þá umræðu sem hefur verið hér að undanförnu og þegar horft er til stjórnarsáttmálans.

Reyndar vorum við í Sjálfstæðisflokknum í upphafi þeirrar skoðunar að efnahagsmálin ættu áfram heima í forsætisráðuneytinu sjálfu og það mætti fella undir þessa fyrirspurn hvort forsætisráðherra teldi koma til greina að efnahagsmálin færu aftur í forsætisráðuneytið þar sem þau voru í upphafi þessa kjörtímabils. En þar sem hér er um að ræða einn mikilvægasta málaflokkinn sem við erum að glíma við á Íslandi í dag, þ.e. sjálf efnahagsmálin, þann stóra málaflokk, skiptir miklu að þessir hlutir séu í föstum skorðum og þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra.