140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

hagvöxtur.

[15:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra tiltölulega einfaldra spurninga. Ef ég hefði viljað heyra öfugmælavísur hefði ég beðið um það. Jafnframt tók ég fram í upphafi að það væri sérstaklega gleðilegt að sjá hvernig hagvöxturinn væri að fara af stað en því miður væri hann byggður á froðu og sandi. Einnig vitnaði ég í orð iðnaðarráðherra sem sagði í gær að pólitísk óvissa hér væri slík að útlendingar vildu ekki fjárfesta. Það var það sem ég sagði. Enn fremur tók ég mjög skýrt fram að í hagtölum sem birtar voru í morgun hefði komið í ljós að atvinnuvegafjárfesting hefði dregist saman um 7,7% á milli annars og þriðja ársfjórðungs. Ef hæstv. ráðherra vill fara með öfugmælavísur og sleppa því að svara beinum spurningum, (Forseti hringir.) þá hún um það.