140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því mjög að við erum nú að ljúka afgreiðslu fjárlaga samkvæmt starfsáætlun og á tilsettum tíma. Ég vil þakka fjárlaganefnd fyrir mikla og vandaða vinnu og segja af minni hálfu að ég er bærilega sáttur við heildarniðurstöðuna, liðlega 20 milljarða halli sem nemur um 1,16% af vergri landsframleiðslu, jákvæður frumjöfnuður upp á liðlega 2% af landsframleiðslu eða um 36 milljarða afgangur frá reglubundnum rekstri ríkisins. Það er tæplega 140 milljarða kr. bati á afkomu ríkisins frá reglubundnum rekstri miðað við árið 2009.

Nýjar hagvaxtartölur frá Hagstofu Íslands í morgun styrkja mjög grundvöll og forsendur þessara fjárlaga. 4,7% hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi, 3,7% að meðaltali á fyrstu níu mánuðum ársins eru vissulega ánægjuleg tíðindi. Þær eru vísbendingar um að batinn er nokkru kraftmeiri en spár hafa hingað til gert ráð fyrir. Þessi hagvöxtur er vissulega drifinn að nokkru leyti af einkaneyslu en líka af kraftmikilli útflutningsstarfsemi (Forseti hringir.) og umtalsverðri aukningu atvinnuvegafjárfestingar sem er 13% á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Allar hrakspár um að fjárlög þessa árs og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar mundu draga úr hagvexti og kæla niður hagkerfið hafa sem betur fer reynst rangar. Hér er ekkert „double dip“ á ferðinni heldur (Forseti hringir.) þvert á móti einhver mesti bati í hagkerfi sem finnst á Vesturlöndum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann, að virða hann.)