140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Af því tilefni sem hér um ræðir þá liggur fyrir tillaga um fjárveitingu til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Athugasemdum í þá veru að hér sé hart gengið fram er mætt með þeim hætti að til sé ákveðinn pottur innan veggja velferðarráðuneytisins til að mæta áhrifum af niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar. Þegar er byrjað að ráðstafa úr honum og var gert hér í umræðunni í gærkvöldi. Enn hafa ekki verið birtar neinar reglur um hvernig á að gera þetta og því síður hafa verið birtar reglur um það hvernig á að fara með halla heilbrigðisstofnana. Okkur er tjáð að það eigi að gera með mismunandi hætti. Það eru engar gagnsæjar reglur þar á bak við. Þeim forstöðumönnum heilbrigðisstofnana sem hafa gengið þann veg til enda að taka á í sínum fjármálum er refsað en þeir sem hafa slugsað við þetta eru hylltir. Það er verklagið sem á að tíðka. (Forseti hringir.) Ég skora á hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson (Forseti hringir.) og hv. þm. Kristján Möller að greiða atkvæði með tillögum okkar.