140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef ég skil rétt erum við að greiða atkvæði um tvo liði, bæði a- og b-lið, í lið 18. Sá fyrri er ákvörðun ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna að hækka tekjuskerðingarmörk húsaleigubóta sem er til góðs fyrir tekjulágt fólk sem fær húsaleigubætur og er tvímælalaust góð stuðningsaðgerð við þann hóp.

Seinni liðurinn er líka ánægjulegur vegna þess að hægt er að draga niður það uppbótarframlag sem fylgir yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga vegna þess að útsvarsstofninn eða tekjuskattsstofninn hefur styrkst svo mjög að þau 1,2% sem færð voru úr tekjuskatti yfir í útsvar eru því sem næst nægjanleg til að mæta kostnaðinum eins og hann er reiknaður út á grundvelli samninga. Í reynd er farið varlega í þá áætlun þar sem notast er við viðmiðunina 925 milljarða heildarlaunagreiðslustofn í staðinn fyrir 948 eins og áætlunin gerir reyndar ráð fyrir þannig að sveitarfélögin eru vel stödd með þessu framlagi. Að lokum mótmæli ég því að ríkið …

(Forseti (ÁRJ): Klukkan er biluð.)

… hafi með ósanngjörnum hætti staðið illa að (Forseti hringir.) tekjulegum samskiptum við sveitarfélögin. Þvert á móti hafa þau mjög notið góðs af ýmsum (Forseti hringir.) tekjuöflunaraðgerðum ríkisins.

(Forseti (ÁRJ): Forseti bendir á að klukkan í borðinu virkaði ekki sem skyldi.)