140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við fjárlagaafgreiðsluna í gær fannst stjórnarliðum harla gott að geta greint frá því að búið væri að draga til baka 1 milljarð af þeim niðurskurði sem hafði verið boðaður í heilbrigðismálum við framlagningu fjárlagafrumvarpsins. Þessi tíðindi segja okkur hins vegar fyrst og fremst sögu af því hversu illa var staðið að undirbúningi fjárlaganna þegar kom að heilbrigðismálunum, hversu óhugsuð þessi mál voru, hversu ófagleg vinnubrögð þarna eru á ferðinni. Þetta er nákvæmlega sama sagan og í fyrra þegar skellt var fram niðurskurðarhugmyndum um stórkostlegan samdrátt í heilbrigðismálum á landsbyggðinni sem ríkisstjórnin var síðan gerð afturreka með vegna þess að stjórnarliðarnir treystu sér ekki til að standa á bak við hann þegar til stykkisins kom.

Þetta eru dæmi um hrakleg vinnubrögð en þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi verið gerð afturreka með þessi niðurskurðaráform sín um sem svarar 1 milljarði kr. stendur eftir alvarleg staða eins og við sjálfstæðismenn vöruðum við og lögðum fram breytingartillögur við við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Við þessa fjárlagaafgreiðslu mun þurfa að fækka starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Vesturlands um 25–28, starfsemi í Stykkishólmi þarf að endurskipuleggja og draga saman þannig að náð verði 30 millj. kr. sparnaði en einna undarlegast finnst mér þetta samt sem áður varðandi Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki þar sem staðan er sú að þar var lagt af stað með niðurskurðaráform sem þýddu yfir 60 millj. kr. Þegar farið var að skoða málið varð ljóst að 2/3 af þessum niðurskurði voru ýmist taldir hæpnir eða ófærir af velferðarráðuneytinu sjálfu.

Nú spyr ég hv. varaformann velferðarnefndar: Hvernig verður reynt að bregðast við þessu? Jafnvel þótt búið sé að draga úr þessum niðurskurðaráformum er staðan einfaldlega sú sem ég lýsti. Heilbrigðisstofnunin í Skagafirði þarf að grípa til hæpinna eða jafnvel ófærra niðurskurðaraðgerða og síðan er veifað framan í mann einhverjum potti (Forseti hringir.) upp á 77 millj. kr. sem enginn veit hvernig á að ráðstafa — nema einstakir stjórnarþingmenn sem eru farnir að hringja í valdar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og segja: (Forseti hringir.) Við eigum að bjarga ykkur, við erum með 77 millj. kr. pott og þið fáið úr honum. Pottajukk hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú verið fært inn í velferðarráðuneytið.