140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Byggðastofnun.

302. mál
[12:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er býsna erfitt að fara stuttlega yfir svona mál í ræðustóli þannig að ég geri ráð fyrir því að við munum fjalla ítarlega um þetta í nefndinni og gera grein fyrir þessari stöðu þar. Þá geta menn fengið allar upplýsingar um hvernig við metum þetta og hvers vegna við ákveðum að leggja þetta frumvarp fyrir núna.

Ég tel engu að síður mikilvægt að menn séu algerlega með það á hreinu að ráðherra sem er í eðli sínu pólitískur er ekki með svona mál í eigin höndum, þ.e. málefni einstaklinga sem sækja um lánveitingar sem eru oft viðkvæm mál, og fari ekki með slík mál til einhvers úrskurðar. Ég tel mjög mikilvægt að það sé hafið yfir allan vafa að teknar eru faglegar ákvarðanir í stjórnsýslunni og með því að gera þessa breytingu tryggjum við það. Svo er ég líka alveg tilbúin að ræða það hvort hugsanlega megi styrkja málskotsferli innan stofnunarinnar, hvort við getum styrkt það með einhverjum hætti samhliða þessari breytingu. Ég vona að nefndin taki það líka til skoðunar.