140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka athugasemdir hv. þingmanns og veit að hann ber góðan hug til vel virkra markaða og sérstaklega til kauphallarviðskipta og hlakka til samstarfs við hann um það áfram. Það er hárrétt sem hann segir að mikilvægt er að endurmeta stöðugt allt regluverk til að koma í veg fyrir að svona hringrás geti myndast aftur og við munum auðvitað gera það mjög vel. Við teljum að gerðar hafi verið umtalsverðar úrbætur á löggjöfinni. Yfirtökuskyldumörkin hafa verið lækkuð og við verðum auðvitað að tryggja það að virk yfirráð verði ekki til í gegnum bakdyraleiðir eins og hv. þingmaður varar við, í gegnum einhvers konar óskilgreint eignarhald einhvers staðar annars staðar. Það er mjög mikilvægt.