140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[20:11]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svona eru vegir fundarskapanna órannsakanlegir að mörgu leyti. Þegar andsvarið verður ræða þá verður svarið andsvar.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að verkefnið er þegar hafið og ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að nefna gríðarlega mikilvægan þátt Veðurstofu Íslands í þessu máli. Veðurstofa Íslands er alger kjölfesta í því að verkefnið verði unnið. Þar fer fram mjög öflug vöktun í raun og veru á íslenskri náttúru hvað varðar náttúruvá sem er sinnt af okkar mikilvægustu og mögnuðustu vísindamönnum að mörgu leyti eða þeim sem skipa meðal annarra þann mikilvæga hóp í lifandi landi eins og ég sagði áðan.

Hversu miklu máli skiptir tímaramminn? Það sem skiptir mestu máli fyrir þetta verkefni að mínu mati er að ekki komi rof í verkefnið, þ.e. að tryggt sé að því sé skapaður skýr fjárhagslegur grundvöllur og það er mikilvægast. Auðvitað er það svo að þegar náttúran er annars vegar getum við aldrei verið fyllilega reiðubúin fyrir hvað sem er og gagnvart náttúrunni er hver dagur eins og þúsund ár stundum, og í jarðsögunni geta aldir verið örstuttur tími. Það er líka mjög afstætt. En mikilvægast af öllu er að við gefum þessu verkefni þann verðskuldaða byr sem því ber.