140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

breytingar á ESB og aðildarumsókn Íslands.

[13:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þó að ekki sé nema rúmlega tveggja tíma flug til Evrópu og Evrópusambandsins finnst manni eins og fréttir berist gjarnan ekki til allra þeirra sem sitja í ríkisstjórn Íslands af málum þar. Hæstv. utanríkisráðherra kemur í fjölmiðla og segir að nú sé þetta bara klappað og klárt, það sé búið að ganga frá samkomulagi sem muni bjarga Evrópusambandinu til langrar framtíðar.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sama sinnis og hvort hæstv. ráðherra geti upplýst þingheim og þá væntanlega fylgismenn síns flokks um hvaða Evrópusamband sé að ræða, hvaða Evrópusamband það er sem hann vill væntanlega sækja um aðild að, í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra bakkaði upp ríkisstjórnina í þessu aðildarferli, og hvort hæstv. fjármálaráðherra telji ekki nauðsynlegt að endurskoða frá grunni þá vegferð sem Íslendingar eru í. Eru ekki komin fram merki eða teikn á lofti, hæstv. fjármálaráðherra, um að það sé ástæða til að setjast niður og spyrja sig hvort við eigum við virkilega að halda þessu áfram? Er ekki rétt að leggja þetta til hliðar, skoða hvað verður um Evrópusambandið? Hvaða Evrópusamband ætla Íslendingar að sækja um? Er það fyrsta lag, annað lag, þriðja lag eða hvers konar lag er það sem hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn hans eru að sækja inn í? (ÞSa: Þetta er jólalag.) Eða er það bara eitthvert jólalag eins og hv. þm. Þór Saari kallar fram í? Það er eins og það sé engin tenging milli raunveruleikans og þeirra atburða sem eru að gerast í Evrópusambandinu og Íslands? Markaðirnir lækka þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra komi fram og segi að þar sé allt í góðum „feeling“ eins og sagt er í Evrópusambandinu.

Ég velti fyrir mér hvort þeir sem stjórna mörkuðunum hlusti ekkert á hæstv. utanríkisráðherra Íslands. Það hlýtur að vera fyrst markaðirnir halda áfram að lækka. Eða er það svo að það sé sama hvað á gengur, þessari vegferð verði haldið áfram? Getur það virkilega verið að stjórnvöld á Íslandi séu svo blind að þau hlusti ekki á fjölmiðla og taki ekki alvarlega þær viðvaranir sem nú koma fram, viðvaranir sem Íslendingar ættu að vera búnir að læra að hlusta á? Hvernig stendur á þessu, frú forseti?

Við hljótum því að spyrja hvort hæstv. fjármálaráðherra, sem fer fyrir öðrum stjórnarflokknum, flokki sem segist vera á móti því að ganga í Evrópusambandið, sé ekki sammála mér og öðrum um að nú þurfi að setjast niður og endurmeta stöðuna. Evrópa sé að breytast það mikið, vandræðin séu það mikil og það er ekki búið að ná tökum á þeim. Það sjá allir sem fylgjast með erlendum fréttum, mörkuðum og yfirlýsingum þingmanna og ráðherra annarra þjóðþinga, sem jafnvel segja að það samkomulag sem lögð voru drög að þurfi að fara (Forseti hringir.) í þjóðaratkvæðagreiðslu eða fyrir þingin o.s.frv.