140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir stuðning að vissu marki við þær breytingartillögur sem hér eru til afgreiðslu. Ég undrast orð þingmannsins um stöðnun og að hér skorti allan vöxt og þá sjálfbæran vöxt sérstaklega, sem virðist vera nýtt hugtak sem Framsóknarflokkurinn hefur fundið upp eftir að hann varð að horfast í augu við að hrakspár hans um ganginn í þjóðarbúskapnum hafa ekki gengið eftir. Hér liggja fyrir tölur fyrir þrjá fyrstu ársfjórðunga ársins upp á 3,7% raunvöxt í landsframleiðslunni, sem er meira en við sjáum nokkurs staðar í kringum okkur. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hv. þingmann um hvort hann viðurkenni ekki þann árangur. Hvort hann sé ekki sammála því að 3,7% vöxtur á landsframleiðslu sé verulegur vöxtur. Hvort hann telji ekki að það sé fagnaðarefni að á komandi ári sé gert ráð fyrir umtalsverðum kaupmáttarauka, launavísitalan hækki um nærfellt 9% á milli ára, sem er líka mjög verulegt í samanburði við öll helstu nágrannalönd okkar. Og hvort menn sjái yfir höfuð engin ljós í þessu í því myrkri sem virðist ríkja í húsakynnum Framsóknarflokksins. Er það ekki orðið algjörlega augljóst að viðfangsefnið hér er ekki lengur hrun heldur er vöxtur á ný og ekki bara í eitt ár, heldur ár eftir ár ef svo fer fram sem horfir? Sér þingmaðurinn það sem raunhæfan möguleika að hér sé hagvöxtur miklu meiri en tæp 4%? Telur hv. þingmaður að atvinnusköpunin á þriðja ársfjórðungi og minnkandi atvinnuleysi sé ekki bara býsna hröð þróun miðað við (Forseti hringir.) hvernig það hefur verið í kringum okkur?