140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum verður nú haldið áfram frá því í nótt. Ákveðið var að stöðva þingstörf á miðnætti og var ég næst á mælendaskrá og er því fyrst á þessum viðburðaríka degi, sem mig langar að óska landsmönnum til hamingju með því að nú hefur Icesave-málið loks komist til dómstóls sem var talin ófær leið í fyrstu en hefur nú orðið að veruleika.

Mig langar í tilefni af því að málið er svona statt að lýsa því yfir að það er skoðun mín að strax í dag eigi Íslendingar, þ.e. ríkisstjórnin, að draga aðildarumsóknina að Evrópusambandinu til baka. Það er ófært að stofnanir Evrópusambandsins beiti hótunum til þess eins að bjarga eigin bankakerfi. Nú hefur Ísland í annað sinn orðið fórnarlamb aðstæðna í Evrópu. Evrópsku bankarnir standa mjög illa og hefur orðið mikill fjármagnsflótti úr grísku bönkunum, sem dæmi, þannig að ástæðurnar, eins og kom fram hér í morgun, eru að því er virðist margar fyrir því að láta til skarar skríða nú. ESA hefur oft gefið sér langtum lengri tíma til að ákvarða hvort fara eigi með mál fyrir dómstólinn.

Að sjálfsögðu fagna ég dómstólaleiðinni. Ég hef ætíð talið að þetta mál eigi að útkljá fyrir dómstólum allt frá því að fyrsti Icesave-samningurinn kom hingað upp á 750 milljarða auk 5,55% vaxta og hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon vildi tafarlaust gangast við þeim samningi og koma þeim byrðum á íslensku þjóðina. Það er rétt að rifja þetta upp núna vegna þess að nú erum við að tala um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem ríkisstjórnin leggur stórauknar álögur á landsmenn, hinn almenna borgara, sem þurfa sífellt að standa undir verkum ríkisstjórnarinnar. Ég spyr, frú forseti: Hvar ætlaði hæstv. fjármálaráðherra að finna þessa peninga á sínum tíma? Þegar ráðherrann skrifaði undir fyrsta Icesave-samninginn var algjörlega óljóst hvort það væru einhverjar eignir í þrotabúi Landsbankans. Þetta gerði hæstv. fjármálaráðherra blindandi og nú eru ríkisfjármálin með þeim hætti að síðan þá hafa Íslendingar verið skattpíndir og gríðarlegur niðurskurður hefur orðið í heilbrigðisþjónustu og grunnstoðum samfélagsins án forgangsraðar. Því auglýsi ég enn eftir því hvar hæstv. fjármálaráðherra ætlaði að finna þessa 750 milljarða auk vaxta þegar hann skrifaði undir fyrsta Icesave-samninginn. Það er rannsóknarefni að ráðherra í ríkisstjórn í fullvalda ríki skuli hafa gengið fram eins og hann gerði í upphafi Icesave-málsins.

Hér á göngunum var talað um það áðan að síðan kosið var á vordögum 2009 hafi engin jól verið hjá þingmönnum án Icesave og nú er það komið á ný. Að þessu sinni eru fréttirnar jákvæðar að mínu mati vegna þess að ég tel að við Íslendingar komum til með að hafa fullan sigur í þessu máli gagnvart EFTA-dómstólnum því að rök okkar eru svo sterk.

Ég minni á að við framsóknarmenn höfum staðið með íslensku þjóðinni alla leið í þessu máli. Við höfum verið samsíða þjóðinni og hafnað því að þessar kröfur leggist á skattgreiðendur. Það er aldrei of oft minnt á það að þingmenn Framsóknarflokksins hafa ætíð greitt atkvæði á þingi gegn þeim klyfjum sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur ætluðu að koma yfir á skattgreiðendur. Rétt er að rifja það upp í því sögulega ljósi þegar það er rætt.

Ég varð svolítið slegin yfir orðum hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar þegar hann hélt ræðu um þetta mál áðan því að svo virðist sem ráðherrann sé ekki enn búinn að gefa það frá sér að Íslendingar eigi að borga þetta. Ráðherrann sagði að það ætti ekki að hrósa sigri strax yfir dómstólaleiðinni vegna þess að niðurstaða dómstólaleiðarinnar yrði samningsbundin til hlítar og ef dómur færi illa værum við skilyrðislaust skuldbundin til að greiða upphæðina sem við yrðum dæmd til. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór yfir það í ræðu sinni að íslenskir dómstólar einir geta dæmt skaðabótaskyldu ríkisins og þess vegna er yfirlýsing fjármálaráðherra hreint með ólíkindum. Ég vona að ráðherrann sé illa að sér í lögum um Evrópurétt frekar en að þetta sé raunveruleg ósk hans. Það er dæmalaust að fjármálaráðherra skuli tala með þessum hætti, sérstaklega þegar það liggur nú ljóst fyrir í desember 2011 að þrotabú Landsbankans getur staðið við nánast allar skuldbindingar, ef ekki allar, eins og fram hefur komið.

Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki vera af baki dottinn í afstöðu sinni til Icesave-málsins. Það hryggir mig og þess vegna hef ég persónulega ákveðið að á meðan þessi ríkisstjórn lafir við völd ætla ég að standa vörð um embætti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Ég lít svo á að þær hugmyndir sem hæstv. fjármálaráðherra hefur komið fram með undanfarna daga og vikur séu stórhættulegar, að sameina eigi efnahags- og viðskiptaráðuneytið fjármálaráðuneytinu og færa raunverulega öll efnahagsmál ríkisins undir fjármálaráðuneytið. Við sjáum nú að hæstv. fjármálaráðherra er ekki fær um að fara með þann málaflokk sem snýr að Icesave og þeirri málssókn sem fram undan er. Hæstv. fjármálaráðherra gerði okkur það alveg ljóst hér áðan í ræðu sinni og þurfti enga hjálp við það að hann er ekki fær um að fara með þessi málefni Íslendinga vegna þess að greiðsluvilji hans fyrir hönd þjóðarinnar gagnvart Bretum og Hollendingum er svo ríkur að það fer ekkert á milli mála á hvaða leið hann er.

Því segi ég aftur að það er kappsmál okkar sem viljum ekki leggja Icesave-skuldir á herðar íslensku þjóðarinnar að standa vörð um sjálfstæði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og þess ráðherra sem þar situr. Sem betur fer skipti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason um skoðun þegar ljóst varð að þjóðin hafnaði Icesave-klyfjunum í annað sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að forsetinn hafði sent málið til þjóðarinnar. Það er nefnilega stundum ágætt að skipta um skoðun og fara að berjast fyrir réttum málstað, það er oft farsælt að fara eftir vilja þeirra sem kjósa mann á þing og það gerði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svo sannarlega. Ég met það svo að eldmóður hans fyrir hagsmunum Íslendinga í Icesave-málinu sé sannur þannig að það sé sagt.

Um þær ráðstafanir í ríkisfjármálum sem við ræðum hér, frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, er kannski frekar lítið að segja í ljósi atburða dagsins, sérstaklega þegar rifjast enn á ný upp þær skuldbindingar sem átti að leggja á herðar þjóðarinnar án þess að gera nokkrar athugasemdir við og leyndarhyggjan var slík að þingmenn áttu ekki að fá að sjá Icesave-samninginn á sínum tíma. Í ljósi þessa undrast maður t.d. að lagt sé til að hækka bensín um nokkrar krónur lítrann til að leggja enn frekari álögur á landsmenn. Ég segi enn á ný: Hvar ætlaði hæstv. fjármálaráðherra að finna peningana fyrir Icesave-skuldinni hefði hún í heild sinni fallið á íslenskt þjóðarbú? Friðhelgisréttindum þjóðarinnar var ekki haldið á lofti og þess vegna hefði hér orðið þjóðargjaldþrot ef hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefði fengið sitt fram á sínum tíma; hann var kominn í ráðherrastól og ætlaði svo sannarlega að sýna þjóðinni að þar færi maður sem kynni að stjórna og fara með vald sitt, algjörlega blindur fyrir því hvort það væri nokkuð í þrotabúinu eða ekki.

Áður en ég yfirgef, frú forseti, þennan kafla í ræðu minni ætla ég að ítreka það að ég tel að nú sé tímabært að Íslendingar dragi umsóknina að Evrópusambandinu til baka eða setji hana alla vega á ís og ekki verði farið af stað með það mál aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

ESB sýnir okkur ekki bara tennurnar á fjármálamarkaði heldur standa ríki ESB í bullandi deilu við Íslendinga út af makrílnum. Það er nánast sama hvert litið er í samskiptum okkar við Evrópuþjóðirnar og Evrópusambandið, það logar allt í deilum. Hvernig er hægt að koma svona fram við smáríki sem á að heita í umsóknarferli, sem er ekkert annað en aðlögunarferli? Þetta er forsmekkurinn af því sem koma skal. Stærstu ríki Evrópusambandsins hafa oft og tíðum kúgað smáþjóðir. Það berast t.d. af því fréttir að ruðst hafi verið inn í Afríkulönd og annað til að ná auðlindum ríkjanna.

Mikið breyttist um síðustu helgi í Evrópusambandinu og Bretar ákváðu að yfirgefa fundinn. Ef það er ekki tímabært núna að Íslendingar taki þetta mikilvæga skref veit ég ekki hvenær það verður. Þrátt fyrir það stendur hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson keikur og telur að ekkert sé að í Evrópu og Evrópusambandið beiti Íslendinga ekki neinum þrýstingi. Ég veit ekki hvað er hægt að kalla svona blekkingu. Meðvirknin varð okkur að falli í bankahruninu, meðvirknin virðist ætla að lifa áfram, að minnsta kosti hjá þeim hluta þingmanna sem vilja halda viðræðum áfram með hæstv. utanríkisráðherra í fararbroddi.

Í umræðum hér um fjáraukalög, fjárlög og svo núna ráðstafanir í ríkisfjármálum og þær miklu álögur sem verið er að leggja á landsmenn með auknum sköttum, gjaldtöku og niðurskurði í opinbera geiranum í viðkvæmum málaflokkum sem við þurfum að standa vörð um, svo sem heilsugæslu, menntamálum, löggæslu, dómskerfinu og Landhelgisgæslunni, þá snertir það mig að á sama tíma eyðir ríkisstjórnin fleiri milljörðum króna í vonlausa Evrópusambandsumsókn.

Ég hef bent á það sem dæmi að skuldbindingar ríkisins vegna EES-samningsins rétt fyrir jólahlé sl. desember — það var rætt um hánótt, slík var leyndin — eru 7 milljarðar á næstu fimm árum. Það hefur komið í ljós að umsóknin sjálf eða það sem okkur er gert opinbert er rúmur 1 milljarður. Á hverju ári fara 1.400 milljónir frá íslenska ríkinu í mennta- og menningarmálasjóð Evrópusambandsins. Þessi umsókn skiptir orðið tugum milljarða og svo megum við hér á landi taka á okkur niðurskurð og auknar skattálögur svo að ríkisstjórnin komist áfram með þetta gælumál sitt.

Frú forseti. Því miður talar hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon orðið mest fyrir Evrópusambandsumsókninni og því að halda þessum viðræðum áfram; sá sem fór með flokk sinn í gegnum síðustu kosningar í andstöðu við Evrópusambandsumsókn. Hvernig líður þingmönnum Vinstri grænna í dag að standa frammi fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra kemur fram í þinginu dag eftir dag og í fjölmiðlum og finnur því allt til bóta að þessari umsókn verði við haldið? Hvernig ætli kjósendum þessa flokks sé innanbrjósts að hafa eytt atkvæði sínu í flokk sem sveik kosningaloforðið daginn sem ríkisstjórnin var mynduð? Það hefur komið í ljós að umsóknin var komin á dagskrá þáverandi flokka í starfsstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Mjög fáir vissu af því en það hefur nú verið upplýst að það var skilyrði Samfylkingarinnar að ef Samfylkingin mundi verða í ríkisstjórn með Vinstri grænum eftir kosningar skyldi þetta mál fá forgang. Þessu er ekki nægilega vel haldið til haga af fjölmiðlum að mínu mati.

Hæstv. fjármálaráðherra er kominn á flótta í málflutningi sínum. Hann sagði í fjölmiðlum í gær að þrátt fyrir að evran væri við það að hrynja og ríki færu fara fram á halda þjóðaratkvæðagreiðslur um hvort þau mundu taka upp evruna þar sem evran hefði veikst svo mikið þá gerði það ekkert til því að þau ríki sem væru í Evrópusambandinu þyrftu ekkert að taka upp evru. En það var akkúrat gulrótin fyrir því að umsóknin var lögð inn sumarið 2009 að við þyrftum stöðugan gjaldmiðil, að krónan væri ónýt. Það voru meginrök þess að leggja inn umsókn því að þá mundi hér allt fara að blómstra. Nú er sú gulrót orðin að mold og hæstv. fjármálaráðherra segir að það geri ekki neitt til vegna þess að ríki í Evrópusambandinu þurfi ekkert endilega að taka upp evru. Rökin sem aðildarsinnar beittu sumarið 2009 eru öll fokin út í veður og vind. Á lagamáli kallast þetta algjör forsendubrestur fyrir því að umsóknin sé þarna inni.

Það væri óskandi að ríkisstjórn Íslands mundi standa með íslensku þjóðinni, mundi hætta að eyða öllum þessum fjármunum í aðildarumsóknina og ganga hreint til verks og draga sig út úr þeim viðræðum sem nú standa yfir. Það er engum til gagns, ekki Íslendingum, ekki Evrópusambandinu, að eyða mannafla, tíma og peningum í þetta rugl, ef ég má segja sem svo.

Á meðan íslenska stjórnsýslan er á hliðinni, á meðan ekki koma frumvörp frá ríkisstjórninni til þjóðþrifamála, á meðan íslensk heimili eru ekki endurreist, á meðan ekkert er gert til að hjálpa atvinnufyrirtækjum að blómstra eða stofnsetja ný fyrirtæki ræðir þingið niðurskurðarfjárlög, sparnað og skattálögur. Það er nefnilega ekki verið að draga saman í öllum opinbera geiranum heldur er bara verið að draga saman þjónustu í viðkvæmu málaflokkunum, eins og ég fór yfir áðan. Ráðuneytin tútna út og settar eru á stofn nefndir hjá hinu opinbera. Nýlega var samþykkt að aðstoðarmenn fyrir ráðherra yrðu 23, en starfsmannafjöldi ráðuneytanna er um 520 manns. Það sjá allir að á meðan ríkisstjórnin heldur áfram að ráða mann og annan inn í ráðuneytin þá hrynur þetta allt fyrir rest. Það þarf ekki vel menntaðan einstakling til að sjá það að opinberi geirinn getur ekki stækkað og stækkað á meðan almenni vinnumarkaðurinn dregst saman. Það sjá líka allir að það þýðir ekki endalaust að skattleggja atvinnulífið hér á landi um leið og ríkisbáknið þenst út. Núllpunkturinn er löngu kominn og því er gat á fjárlögum vegna þess að almenni vinnumarkaðurinn aflar ekki nægra tekna og er svo skattlagður að atvinnulífið nær ekki að skila nógu miklu í ríkiskassann. Þetta sjá allir nema hin verklausa vinstri stjórn sem kann það eitt að skattleggja og skera niður viðkvæma málaflokka.

Könnunin sem gerð var í Reykjavík á læsi drengja var t.d. mjög sláandi. Þyrfti ekki að styrkja grunnskólana í gegnum sveitarfélögin með aðstoð frá ríkinu í stað þess að skera niður menntakerfið? Ætlum við ekki að vera sú menntaþjóð sem við erum þekkt fyrir? Það eru alls staðar rangar áherslur. Hér er verið að loka viðkvæmum sjúkrastofnunum, t.d. St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði sem hefur sérhæft sig í grindarbotnsaðgerðum kvenna. Yfirlýsing velferðarríkisstjórnarinnar þegar þeim spítala verður lokað verður kannski sú það sé ekki þess virði að halda honum opnum vegna þess að konur séu ekki jafnverðmætur vinnukraftur og karlmenn. Ég segi sísvona. Það var verið að loka deild á Landakoti og víðar um landið. Barnshafandi konur á landsbyggðinni eru hræddar um heilsu sína og barnanna sem þær bera undir belti vegna þess að það er orðið svo langt í næstu fæðingardeild. Er þetta velferðarríkisstjórnin?

Þetta klingir bjöllum: Hvernig voru kosningaloforðin? Velferðarbrú, var það ekki? Átti ekki að reisa velferðarbrú hér eftir síðustu kosningar? Mig minnir það. Ég held að ég verði að leita að því hvar hún hafi verið reist annars staðar en á milli ráðuneyta.

Talandi um ráðuneyti, fram kom á fundi fjárlaganefndar um daginn að það markmið ríkisstjórnarinnar að færa alla stjórnsýsluna niður í bæ og sameina ráðuneyti, færa til stofnanir, nefndir, aðstöðu þeirra og annað, hefði kostað litlar 280 milljónir undanfarin tvö ár. Þetta kemur inn í fjáraukalög og í bútum inn í fjárlög til að villa um fyrir mönnum svo að heildarupphæðin sjáist hvergi á blaði. Við erum að tala um tæpar 300 milljónir í þá vitleysu að færa til stofnanir ráðuneyta og nefndir. Fullt af húsnæði sem ríkið hefur gert langtímaleigusamning um stendur nú autt vegna þess að sífellt er verið að færa stofnanir. Það er ekki heil brú í stjórnun ríkisstjórnarinnar í opinbera geiranum.

Það er með ólíkindum að þetta skuli líðast. Við erum í minni hluta í þinginu. Bloggsíður loga oft og sagt að nú þurfi stjórnarandstaðan að standa upp og gera eitthvað róttækt. Það er ekki hægt á meðan ríkisstjórnin hefur hér meiri hluta. Ég hvet því landsmenn til að ákalla þá ráðherra í ríkisstjórninni sem hafa sýnt ríkisstjórninni mesta andstöðu, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason og hæstv. innanríkisráðherra Ögmund Jónasson. Þessi ríkisstjórn verður ekki sprengd nema þessir tveir menn standi upp með okkur í stjórnarandstöðunni, standi með fólkinu í landinu og segi: Hingað og ekki lengra! Fyrst þá verður þessari ríkisstjórn hrint frá völdum, ekki fyrr.

Ég ítreka að Framsóknarflokkurinn er tilbúinn í kosningar hvenær sem er, við erum óhrædd við að endurnýja meiri hlutann. Eins og staðan er núna er annar meiri hluti á þingi og í ríkisstjórninni en hjá þjóðinni, það er löngu vitað.

Ríkisstjórnin, eins og segir í nýju máltæki mínu, stingur svo sannarlega höfðinu í steininn og sér ekki hvað er að gerast. Ríkisstjórnin hefur það eitt að markmiði að lifa af einn dag í einu. Einn dag enn skal ríkisstjórnin halda völdum. Frú forseti. Það eru 499 dagar fram að kosningum. Þetta er óbærilega langur tími ef við þurfum að sitja uppi með þessa ríkisstjórn og það fólk sem þar er. Ég hvet landsmenn til að gagnrýna ríkisstjórnina opinberlega og nefna hana ekki í skoðanakönnunum. Ég veit að óhagstæðar niðurstöður í skoðanakönnunum er það versta sem Samfylkingin lendir í. Svo eru komin tvö ný framboð, framboð hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem hefur fengið listabókstafinn C, og framboð hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar sem taka bæði fylgi frá ríkisstjórninni, að sjálfsögðu ásamt okkur í Framsóknarflokknum. Ég hvet einnig fólk til að standa vörð um Framsóknarflokkinn því að við stöndum við það sem við segjum.

Eyðsla ríkisstjórnarinnar. Vinstri flokkarnir kunna langbest, sérstaklega kratar, að eyða fé frá öðrum og nota í gæluverkefni. Ég get ekki horfið frá þessari umræðu án þess að minnast á þær þúsund milljónir sem farið hafa í það sem var upphaflega kallað stjórnlagaþing. Ég fullyrði að það er búið að breytast í olnbogabarn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur því að það veit enginn hvað á að gera við þá afurð sem varð til úr ólöglega kjörnu stjórnlagaþingi sem breytt var í stjórnlagaráð sem er einungis ráðgefandi fyrir þingið, stjórnarskrárbreytingar verða ekki nema á kosningaári. Í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd liggur 1 þúsund milljóna króna skýrsla sem enginn veit hvað á að gera við. Um það eru deildar meiningar. Sumir vilja senda frumvarpið beint í þjóðaratkvæðagreiðslu, ríkisstjórnin tekur ekki séns á því vegna þess að þá yrði málið fellt. Sumir vilja gera smávægilegar breytingar og senda málið svo í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, það geta aðrir ekki hugsað sér. Málið er í fullkomnu uppnámi. Ríkisstjórnin braut í bága við stjórnarskrá með því að úthýsa stjórnskipunarvaldi Alþingis. Fyrir rest verða það alltaf þjóðkjörnir alþingismenn, 63, sem koma til með að þurfa að samþykkja nýja stjórnarskrá, boða til alþingiskosninga í millitíðinni og samþykkja svo stjórnarskrána á ný eftir að nýir þingmenn hafa verið kosnir á þing sem einnig þurfa að taka þátt í því. Stjórnskipunarvaldið er langtum stærra en nokkurn tíma þingið. Þarna liggja 1 þúsund milljónir, frú forseti. Þetta eru háar upphæðir í ljósi þeirra niðurskurðartillagna sem liggja fyrir.

Ég minni á að ríkisendurskoðandi þurfti t.d. að fara bónleiður til fjárlaganefndar og fá 20 milljónir. Þetta er sá sem á að endurskoða ríkisreikninginn og sjá til þess að framkvæmdarvaldið fari eftir þeim fjárveitingum og noti þá fjármuni sem því er ætlað til þeirra verka sem því er ætlað að sinna. Það var komið fram í 3. umr. þegar hv. fjárlaganefnd tók þá ákvörðun að veita þessa fjárheimild. Það eru 10 milljónir hér og 20 milljónir þar og aðrar 30 milljónir í brýn úrlausnarefni sem þarf að eyða peningunum í, en ríkisstjórnin hefur sett aðrar áherslur og setur fjármagnið í ESB-umsókn og stjórnlagaþing. Þetta eru hræðilegar staðreyndir sem ég verð að rifja upp í ljósi þess að við erum að ræða þetta mál.

Þá er best að kíkja aðeins í frumvarpið. Mikið hefur verið rætt um umhverfis- og auðlindaskattinn. Eins og allir vita eru auðlindirnar mitt hjartans mál. Ég hef mikið fjallað um loftslagskvóta og allt sem því tilheyrir og það að ríkisstjórnin afsalaði sér miklum fjárhæðum með því að ganga evrópska kerfinu á hönd í loftslagsmálum. Ég ætla svo sem ekki að hafa fleiri orð um það vegna þess að búið er að ræða það svo mikið. En það vita allir hvar ég stend í því máli. Í ljós kom að þar ætti að tvískatta en ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að ræða það.

Mig langar til að nefna olíu- og bensínskattinn. Verið er að hækka hann enn einu sinni nú um áramótin. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur reiknað verðlagsáhrifin af hækkun bensíns og olíu upp á 0,2%, það sem breytist um áramótin. Þegar þau áhrif koma til framkvæmda hækkar það íbúðalánin um 2,5–3 milljarða, allt eftir því hvort við teljum að íbúðalánin séu 1.200 milljarðar eða 1.500 milljarðar, en það er raunverulega sú upphæð sem á að taka út úr lífeyrissjóðunum. Það á að taka 1,2 milljarða næstu tvö ár út úr lífeyrissjóðunum, samtals 2,4 milljarða, en það er nánast akkúrat sú upphæð sem bætist á lánin vegna þeirra verðlagsáhrifa sem verða við hækkunina um áramótin á bensíni og olíu, sem leiðir svo hugann að því að Íbúðalánasjóður á t.d. megnið af íbúðabréfunum því að bankarnir hafa dregið sig nánast út af íbúðalánamarkaði. Og hver á megnið að íbúðabréfum Íbúðalánasjóðs? Jú, það eru lífeyrissjóðirnir. Það má því hæglega einfalda þessa jöfnu á þann hátt að það sem verið er að taka út úr lífeyrissjóðunum núna með þessum tveimur eingreiðslum upp á 1,2 milljarða bætist lífeyrissjóðunum upp strax nú um áramótin vegna verðlagsáhrifanna.

Þarna er verið að færa til peninga. Við skulum ekki gleyma því að eftir hrun hafa lífeyrissjóðirnir hagnast um 120 milljarða vegna verðbólgunnar sem skapast hefur og þeirra verðlagsáhrifa sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Lífeyrissjóðirnir eru því búnir að græða á því ástandi sem nú er án þess að gera kannski mál sín upp eftir hrun því að það hefur nánast enginn ábyrgðarmaður lífeyrissjóðs eða í stjórn lífeyrissjóða sagt af sér og ekki hefur neitt uppgjör farið fram á lífeyrissjóðunum. Ég vil segja að það verður að gæta jafnræðis o.fl. varðandi þá leið að fara inn í lífeyrissjóðina, þ.e. þess jafnræðis sem rætt hefur verið um með lífeyrissjóðum á opinberum markaði og almennu lífeyrissjóðum.

Það er einnig verið að hækka áfengi og tóbak um 5,1% sem hefur líka áhrif á íbúðalánin. Það er því verið að fara inn í akkúrat þá liði sem hækka verðtrygginguna. Og þá hugsar maður: Er það gert með vilja eða ekki? Af því að það er sumum til hagsbóta að hafa verðbólgu. En þetta bitnar náttúrlega fyrst og fremst á heimilunum. Heimilunum blæðir því að matarkarfan hefur hækkað heil ósköp frá hruni. Með hækkandi lánum, hækkandi matarkörfu og hækkandi neyslusköttum eru margar fjölskyldur komnar í mikil vandræði. Rétt er að minna á að hjálparstofnanir hafa bent á nú í desember, á aðventunni, að aldrei hafi fleiri leitað til þeirra, sem er alveg einkennilega skrýtið, sérstaklega í ljósi þess að í hinu orðinu er okkur talin trú um að hér sitji norræn velferðarríkisstjórn. Ég sé enga velferð í því, frú forseti, að skattpína fólk svo mikið að það þurfi að leita sér aðstoðar hjá hjálparstofnunum í hverri einustu viku. Ég sé enga velferð í því og kem ekki til með að sjá það í framtíðinni og minni á orð hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar sem sagði í fjárlagaumræðunni: Er ekki tímabært að ríkisstjórnin hætti að kalla sig velferðarstjórn? Ég held að við ættum að fara að gera það, nema þá til að hæðast að þessari aumu, vesælu ríkisstjórn.

Það eru víða matarkisturnar sem ríkisstjórnin finnur. Ég nefni til dæmis lög um Ríkissjónvarpið sem var breytt fyrir nokkrum árum, að hér er verið að leggja til hækkun úr 17.900 kr., á einstakling frá 16 ára aldri, upp í 18.800 kr. Þetta eru kannski ekki háar upphæðir fyrir heimilin en ég vil minna á að þar sem eru unglingar í heimili þurfa þeir að bera þennan kostnað líka. Í stað þess að borga mánaðargjald er þetta orðið bundið við kennitölu manns á heimili. Þetta er því orðið ansi þungt gjald ef það eru kannski hjón með þrjá unglinga á heimilinu. En svona er alls staðar verið að ryðjast inn.

Varðandi þjóðkirkjuna væri hægt að halda langa ræðu um það sem farið er fram með í frumvarpinu því verið er að lækka gjald til hennar. Þjóðkirkjan hefur fært sannfærandi rök fyrir því að hún þarf tæpar 500 milljónir til þess að geta staðið jafnfætis öðrum sem fjárlögin fjalla um vegna annarra reiknihátta við verðlagsuppfærslur, en á það hefur ríkisstjórnin náttúrlega ekki hlustað né meiri hlutinn í fjárlaganefnd. Gengið er svo langt að mínu mati og enn höggvið í knérunn þjóðkirkjunnar að komið er að hættumörkum, sérstaklega í ljósi þess að í Reykjavíkurborg, sem er mitt kjördæmi, er rekin stefna í þá átt að grunnskólabörn mega ekki lengur fara með faðirvorið í kirkjum. Það er hættuleg stefna, sérstaklega á þeim erfiðu tímum sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð, þegar allir þurfa að standa saman og hlúa hver að öðrum. Þá er ruðst inn í þjóðkirkjuna líka með þessa stæla, verð ég að kalla þetta, þessa vinstri stæla.

Svo er það líka sérstaklega einkennilegt í ljósi þess að Samfylkingin er í borgarstjórn í Reykjavík og bannar aðkomu þjóðkirkjunnar að skólastarfi, að þá skuli hæstv. iðnaðarráðherra veita verðlaun, í gær, sem snúa að því að laða hingað trúaða Bandaríkjamenn. Á hvaða braut erum við sem þjóð? Fínt að hafa uppbyggingarverkefni, og það er það sem við þurfum, við þurfum erlenda fjárfestingu inn í landið og koma hér öllu af stað, en hvert er verið að fara? Á meðan ákvæði er í stjórnarskránni um að við höfum þjóðkirkju þá ber að hlúa að henni. Þetta er ekki bara sagt hér, frú forseti, af því að jólin eru fram undan heldur er þetta mín skoðun og skoðun Framsóknarflokksins.

Ég hef oft bent á það síðan ég tók sæti á Alþingi að hér séu stundaðar lagabætur. Með lagabótum á ég við að hingað inn í þingið koma frumvörp svo illa unnin, en eru samt samþykkt sem lög, að þau standast ekki stjórnarskrá né önnur lög. Oft og tíðum hafa verið sett lög sem varða EES-samninginn sem beinlínis ESA hefur rekið til baka. Það er nefnilega þannig að í síðustu umferð þessara laga, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, á síðasta ári var gerð breyting á lögum nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar, með síðari breytingum. Mig langar aðeins til að lesa hvað stendur svo í þessu frumvarpi sem á að samþykkja nú fyrir jól vegna þess að kaupskipaútgerðin var skattlögð fyrir ekki svo löngu af þessari ríkisstjórn, en það var vegna þess að fram kom ríkisaðstoð varðandi kaupskipaútgerðina.

Þessu var áfrýjað til ESA, en í frumvarpinu stendur, í 29. gr., með leyfi forseta:

„Í samræmi við reglur EES-samningsins var Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnt um áformaða ríkisaðstoð. Þann 8. júlí 2009 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að ríkisstyrkir vegna kaupskipaútgerðar á Íslandi væru ólögmætir ríkisstyrkir skv. 61. gr. EES-samningsins. Með vísan til framangreinds er því lagt til að lögin verði felld brott.“

Svona lagað þurfum við að vera að taka hér upp lög eftir lög, breyta þeim vegna þess að þau standast hvorki stjórnarskrá né alþjóðasamninga. Ég minni á ótal mál sem hafa farið til ESA. Það er gagnaverið í Reykjanesbæ, það er Ríkisútvarpið, breyting á lögum um þau. Það eru mörg lög sem hafa endað hjá ESA þar sem ESA hefur komist að því að um ólögmæta ríkisaðstoð væri að ræða eða eitthvað annað sem hefur brotið gegn EES-samningnum.

Það er ekki nokkur leið að koma því inn hjá ríkisstjórninni að efla þurfi faglegt og fjárhagslegt vald Alþingis til þess að hægt sé að fara að starfa hér á grunni löggjafarþings eins og gerist best í nágrannalöndunum. Það virðist vera algjört smotterí hjá ríkisstjórninni að hér sé vönduð lagasetning því að vönduð lagasetning leiðir til þess að færri dómsmál rísa og færri úrskurðarmál hjá þeim aðilum sem þarf að úrskurða í. Sem dæmi má nefna að ríkisstjórnin hefur núna lagt 2.500 milljónir til umboðsmanns skuldara. Við framsóknarmenn gátum ekki staðið að þeirri tillögu vegna þess að við teljum að sú leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara í skuldamálum heimilanna hafi verið röng. Við vildum fara í almenna skuldaniðurfellingu á grundvelli jafnræðis.

Í heimsókn hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umboðsmanns Alþingis fyrr í vetur kom í ljós að málum hjá umboðsmanni Alþingis hefur fjölgað um 40% og munar þar mest um fólk sem hefur leitað réttar síns eða ætlað að fá úrbætur hjá umboðsmanni skuldara og ekki fengið vegna hægagangs eða annars. Þetta er grafalvarlegt mál en á meðan lagasetningin er svo óskýr sem raun ber vitni og ríkisstjórnin fer fram með þá fjölgar þessum málum til muna. En þetta uppfyllir kannski markmið ríkisstjórnarinnar að fjölga opinberum störfum, það er það sem hún kann, að koma fleirum á jötuna í stað þess að hafa vandaða og góða lagasetningu sem ætti raunverulega að útrýma þessum vandamálum. Þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin verður að eiga við sig, ég þreytist ekki á að benda á það að hér þurfi að taka til varðandi það að styrkja löggjafann faglega og fjárhagslega.

Ég hef nú farið yfir það í megindráttum sem ég ætlaði að impra á. Þetta er enn eitt hækkunarfrumvarpið, hækkun á gjöldum. Það er notað sem rök að hér séu ákveðnar hækkanir vegna verðlagsáhrifa. Ég tel þetta ekki vera þá leið sem eigi að fara því að á meðan verið er að taka tillit til þeirra helst verðbólgustig hátt og að mínu mati er verðbólga hér á landi allt of há miðað við það hvað er mikið atvinnuleysi.

Hæstv. forsætisráðherra neitar að horfast í augun við þær staðreyndir að fólksflótti hefur verið síðan ríkisstjórnin tók við eftir hrun og það er mikill fólksflótti frá landinu og ég spái því að fólksflótti verði frá landinu á meðan þessi ríkisstjórn situr, því miður. Það sást best í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær. Þar var viðtal við konu sem sá enga framtíð hér á landi á meðan núverandi ríkisstjórn situr við völd.

Virðulegi forseti. Ég skora á alla sem vettlingi geta valdið að koma ríkisstjórninni frá völdum. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég hef oft haldið að ríkisstjórnin væri að hrökklast frá völdum en aldrei orðið að ósk minni, því miður. Það er alveg sama hvað gengur á, það er alveg sama hvað ríkisstjórnin er dæmd í mörgum málum eða fær óhagstæða úrskurði á sig, hún situr samt. Ríkisstjórnin hefur fengið á sig tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, hún situr samt. Ríkisstjórnin virðist eiga níu líf en ég tel að þau séu brátt á þrotum. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að kosningar verði og nýir aðilar komist að til að stjórna landinu. Tækifærin eru öll okkar, við eigum gnótt auðlinda, við verðum að nýta þær á réttan hátt til farsældar fyrir íslenska þjóð.