140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist að það hafi nú verið tæmt ágætlega sem snýr að skattlagningu á lífeyrissjóði. Það er þó einn þáttur sem lítið hefur verið rætt um, það er mikið af sérkennilegum málum í gangi í þessum bandormi, en það er þessi svokallaði auðlegðarskattur, þ.e. eignarskattur sem ætti í raun að heita eignarnámsskattur. Á það hefur verið bent að þessi skattur er í framkvæmd ekki ósvipaður þeim skatti sem austur-þýskir kommúnistar notuðu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar til að sölsa undir sig eignir fólks. Það er ekki ég sem kom með þennan samanburð, það var hæstaréttarlögmaður hér í bæ sem hitti okkur á fundi nefndarinnar í morgun.

Ég tók raunveruleg dæmi af fólki sem er að flýja land út af þessum skatti. Þetta er fólk sem á ekki lífeyrissjóð vegna þess að það hafði ekki tækifæri til að greiða í lífeyrissjóð, en á eignir og er að nota þær til að fá lífeyrisgreiðslur sínar en ekki eins og væri úr hefðbundnum lífeyrissjóði. Skatturinn er ekki á tekjur heldur á eignir þannig að það þarf þá að selja eignir til þess að greiða skattinn.

Mér sýndist ekki á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að nokkru tauti væri við hv. stjórnarþingmenn komið, og þeim líður almennt bara mjög vel með þennan skatt. Það er þó ein tegund eigna sem er ekki undir þegar auðlegðarskatturinn er annars vegar og það eru lífeyrisréttindin. Nú þekkja menn að um 2 þús. milljarðar eru í lífeyrissjóðum og þar er auðvitað mikið af eignum. Sérstaklega eru opinberir starfsmenn, m.a. stjórnmálamenn og embættismenn, sem eftir langan tíma eiga miklar eignir í lífeyrissjóðum og mikil lífeyrisréttindi. Ég vildi bara heyra sjónarmið hv. þingmanns annars vegar á þessum auðlegðarskatti og úr því að vinstri stjórnin er með auðlegðarskatt af hverju hún setur hann þá ekki á allar eignir, m.a. eignir þeirra stjórnmálamanna sem eru hér að (Forseti hringir.) samþykkja þann skatt.