140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er kominn hingað til að veita andsvar og velta upp hugmyndum. Af því að hann endaði sitt fyrra andsvar á umræðu um séreignarsparnað vildi ég sagt hafa að á sínum tíma lokaði ég ekki á þá hugmynd að skattleggja séreignarsparnaðinn til að sækja fjármuni. Mín nálgun var hins vegar ætíð sú að við ættum ekki að fresta þeim vanda að takast á við þann mismun sem var á gjöldum og tekjum ríkissjóðs, við áttum að takast á við þann vanda með því annaðhvort að breyta útgjöldunum eða tekjunum, en við ættum hins vegar að horfa á þá möguleika að skattleggja séreignarsparnaðinn og nýta þá fjármuni til að ráðast í fjárfestingar, t.d. búa til eitt stykki spítala sem sparar okkur 2 milljarða á ári en kostar kannski 40.

Eina leiðin til að réttlæta það að fara í fjölskyldusilfrið væri ekki að fresta því að takast á við þann veruleika sem ríkissjóður bjó við á þeim tíma, að takast á við mismuninn á tekjum og gjöldum, heldur hvort möguleiki væri á því að ráðast í fjárfestingar til að efla atvinnulífið og auka hér hagvöxt á nýjan leik.

Hv. þingmaður kom víða við. Heilt yfir má eiginlega segja að á tíma þessarar ríkisstjórnar, þegar okkur hefur tekist að taka fjárlagahallann úr 216 milljörðum niður í 20 milljarða á fimm ára tímabili, höfum við þurft að horfa á tvennt, annars vegar útgjöldin og hins vegar tekjurnar. Það er erfitt að skera niður. Í anda jafnaðarmanna höfum við reynt að hlífa þeim sem standa veikast, hvort sem það er í gegnum bótakerfið, almannatryggingar, eða tekjuskattinn, og horfa til þess að sækja þær tekjur sem mögulegar eru hjá þeim sem eru aflögufærir og eiga sjóði til að standa undir sameiginlegum rekstri ríkisins. Þannig eigum við að takast á við verkefnið til að hlífa okkar minnstu bræðrum og systrum í þessu samfélagi.