140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

forræði Icesave-málsins í Stjórnarráðinu.

[10:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er mjög ánægður að heyra að til standi að hafa áfram samráð við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Það er nokkuð brýnt að koma á festu í því hvernig á því verður haldið. Þar er grundvallaratriði að fyrir liggi hver fer með málið, hver hefur forustu um að halda utan um það. Því velti ég fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra geti ekki staðfest hér og nú að hún telji æskilegt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra haldi áfram utan um málið þó að aðrir ráðherrar komi þar að líka og utanríkisráðuneytið geti gegnt einhverju hlutverki í málinu, rétt eins og það gegndi hlutverki í rekstri máls fyrir EFTA-dómstólnum um gjaldeyrishöftin þar sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafði á margan hátt forustu þó að utanríkisráðuneytið hefði milligönguhlutverk.

Mætti ekki hafa sama háttinn á í þessu máli og vill ekki hæstv. forsætisráðherra staðfesta (Forseti hringir.) að hún sé sammála mér um að slíkt fyrirkomulag væri æskilegt?