140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að þrepin í skattkerfinu hækki samkvæmt þróun launavísitölu. Við náðum þeim árangri í störfum nefndarinnar að neðra þrepið verur hækkað úr 209 þús. kr. upp í 230 þús. kr., sem er góður árangur ekki hvað síst fyrir þá sem lökust hafa kjörin. Að sjálfsögðu hefðum við viljað gera betur en í ljósi þess að við höfum þó náð þessum árangri og þessu stefnumiði okkar fram, við höfum þokað málum í rétta átt, munum við greiða atkvæði með þessari breytingu. Hins vegar munum við ekki styðja það að önnur þrep skattkerfisins hækki ekki í samræmi við launaþróun, það er verið að hækka skattbyrðina á þeim hópum, það getum við ekki stutt.