140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er alltaf jafnánægjulegt að hlusta á helsta skattahækkunarbaráttumann Samfylkingarinnar, hv. þm. Magnús Orra Schram, fara hér yfir mál.

Það væri réttara ef menn bentu á þá staðreynd að í umsögn í nefnd kom fram hjá öllum þeim endurskoðunarfyrirtækjum sem voru kölluð fyrir að tugir manna væru að fara úr landi út af þessum skatti. Þessi skattur er á eignir, hann er ekki á tekjur. Honum hefur verið líkt við skattlagningu sem austur-þýskir kommúnistar voru með eftir seinna stríð, [Kliður í þingsal.] ekki af mér, virðulegi forseti, heldur hæstaréttarlögmanni sem hefur skoðað þessi mál sérstaklega.

Ef hv. stjórnarþingmenn eru svona sannfærðir um ágæti þessa skatts hljóta þeir að stíga næsta skref sem er að setja lífeyrisréttindi í þennan skattstofn. Þar eru réttindi sem eru svo sannarlega eignfærð og hægt að reikna upp. (Forseti hringir.) Ef hv. þingmenn eru sannfærðir um ágæti skattsins hljóta þeir að drífa í því. Hér er nokkuð um lífeyrisréttindi, virðulegi forseti.