140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Með því að segja já við þessari breytingartillögu eru ríkisstjórnarflokkarnir að hækka álögur á heimilin og atvinnulífið í landinu. Hækkun á eldsneyti mun trúlega verða rúmar 4 kr. um áramótin verði þessar tillögur ríkisstjórnarinnar að veruleika. Það kemur ofan á það að dísilolía hefur hækkað um 13% á þessu ári og bensínið um 7% og enn á að bæta í. Enn á að hækka álögur á heimilin og fyrirtækin. Hverju veldur þessi breytingartillaga? Hvaða áhrif mun hún hafa til að mynda á skuldug heimili? Þetta mun fara út í vísitöluna, þetta mun hækka lán skuldugra heimila. Þetta er kannski stefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn við þessa umræðu og um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012.