140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[22:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu held ég flestum ljóst að hin hreina vinstri stjórn sem nú situr er á þeirri vegferð að leggja álögur á atvinnulífið með þeim hætti að það á enga aðra kosti en að velta þeim út í verðlagið, yfir á viðskiptavinina. Við heyrðum í fréttum í kvöld viðtal við framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands sem vitnaði í nýframlagða samgönguáætlun þar sem gert er ráð fyrir lendingargjöldum á Reykjavíkurflugvelli upp á 250 milljónir, ef ég man rétt, einhvern tíma á næstu árum. Það kom einfaldlega fram hjá framkvæmdastjóranum að ekki væri hægt annað en að velta þeim áfram út í fargjöldin og þann kostnað sem farþegar bera. Það held ég að sé nokkuð ljóst.

Því hefur gjarnan verið haldið fram að kerfið sem verið er að fjármagna sé einfaldlega of dýrt og of stórt. Árið 2007 tóku tveir flokkar við völdum, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Það vill gjarnan gleymast að Samfylkingin var í ríkisstjórn og hefur verið í ríkisstjórn frá þeim tíma. Þá hófst tímabil mikillar útþenslu í ríkisrekstri þar sem ég geri ráð fyrir að eitt af skilyrðum stjórnarsamstarfsins hafi verið það að þenja út ríkisreksturinn af hálfu Samfylkingarinnar og við því er verið að bregðast núna.

Ég velti því fyrir mér hvort sú aðgerð sem var þá væntanlega farið í vegna kröfu Samfylkingarinnar, að þenja út ríkisreksturinn og sú staðreynd að við erum með kerfi sem virðist vera of dýrt því umhverfi sem við búum við í dag, hvort ekki sé einfaldara að blása til sóknar tekjulega í staðinn fyrir að reyna að skattleggja, og skera sig út úr þeim vanda og búa til fleiri tekjustofna fyrir ríkissjóð.