140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðuna í landsdómsmálinu. Forsaga þess máls nær aftur til haustsins 2008 er Geir H. Haarde og aðrir fulltrúar þingflokka á Alþingi ákváðu að skipa rannsóknarnefnd Alþingis en skýrslu hennar var ætlað að leggja til grundvallar ályktun þingsins um hvort ráðherrar hefðu brotið lög um ráðherraábyrgð í aðdraganda hrunsins. Þannig var í árdaga málsins lagt af stað með stuðningi fyrrverandi forsætisráðherra án þess að lagðar væru til breytingar á lögum um ráðherraábyrgð eða landsdóm.

Vorið 2010 ákvað Alþingi að skipa nefnd þingmanna til að móta afstöðu þingsins til skýrslunnar og taka ákvörðun um hvort vísa ætti málum einstakra ráðherra til landsdóms vegna hugsanlegra brota á lögum um ráðherraábyrgð. Þannig skipaði Alþingi þingmenn til verka eftir vinnulagi og lagaumgjörð sem það sjálft hafði ákveðið. Sérstaklega var leitað eftir því að skipa þingmenn sem ekki höfðu starfað á Alþingi þegar hrunið átti sér stað enda talið mikilvægt að gæta að fjarlægð þingmanna frá viðfangsefninu. Sjö af níu nefndarmönnum töldu að málum þriggja eða fjögurra ráðherra ætti að vísa til landsdóms. Það var svo Alþingi sem ákvað að einungis væri ástæða til að senda mál eins ráðherra til landsdóms þ.e. mál fyrrverandi forsætisráðherra.

Við vinnu þingmannanefndarinnar var fagleg og málefnaleg nálgun í fyrirrúmi og tekin afstaða til þeirra upplýsinga sem komu fram í viðamikilli skýrslu rannsóknarnefndar um embættisfærslu viðkomandi ráðherra.

Virðulegi forseti. Að mati þess sem hér stendur voru til staðar nægar málsástæður til að vísa ætti málum viðkomandi og fleiri ráðherra þangað þar sem meðal annarra okkar vísustu lögspekingar gætu ákvarðað hvort fyrrverandi forsætisráðherra hefði brotið lög um ráðherraábyrgð eða ekki. Úrskurður landsdóms frá því í október síðastliðnum breytir engu þar um enda standa eftir fjögur málsatriði og Alþingi á ekki að stíga inn í ferli málsins. Ég taldi þannig að nægar upplýsingar væru fyrir hendi til að vísa málinu áfram til landsdóms. Með því er ekki sagt fyrir um sekt eða sakleysi enda er það landsdóms að komast að efnislegri niðurstöðu. (Forseti hringir.) Ber ég fullt traust til þess að þar njóti fyrrverandi forsætisráðherra sanngjarnar og réttlátrar málsmeðferðar og málinu ljúki með efnislegri, réttri niðurstöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)