140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í morgun var afar sérkennilegt viðtal við hæstv. forsætisráðherra á Rás 2 þar sem hún lýsti því yfir að hún væri alfarið á móti landsdómi, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal rakti áðan. Hún sagði líka að það kynni að vera óheppilegt fyrir Alþingi að grípa inn í dómsmál. Hvers lags vitleysa er þetta? Það er Alþingi sem rekur landsdómsmálið. Af því leiðir að Alþingi hlýtur að hafa á því skoðun og geta skipt um skoðun eða þróað þá skoðun með sér.

Annað sem hæstv. forsætisráðherra sagði var að óheppilegt væri hversu seint tillaga um að skora á saksóknara að draga þetta mál til baka væri fram komin. Þetta segir forsætisráðherra sem skilar helst aldrei nokkru máli inn í þingið nema með afbrigðum, aldrei á réttum tíma, og leyfir sér í því eina tilviki þegar aðrir koma með mál seint inn í dagskrá þingsins að telja það óhæfu.

Viðbrögð forsætisráðherra benda því miður til þess að það sem rætt var hér um framgöngu þingflokks Samfylkingarinnar þegar þetta mál var afgreitt á sínum tíma, eigi við rök að styðjast. Allir aðrir flokkar tóku afstöðu til þessa máls út frá niðurstöðu þingmannanefndarinnar og vildu ákæra alla þá sem þingmannanefndin lagði til eða engan. Samfylkingin fór hins vegar í mjög sérkennilegan leik í atkvæðagreiðslunni til að tryggja að einungis einn maður, pólitískur andstæðingur þeirra, yrði dreginn fyrir landsdóm. (Gripið fram í.) Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við málinu nú eru því miður ekki til þess fallin að draga úr efasemdum um framgöngu Samfylkingarinnar í þessu máli. En vonandi munu þó þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem vilja að Alþingi fái að afgreiða málið og ræða það, ná sínu fram. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera eðlileg krafa þess fólks og annarra að fá að taka þetta mál fyrir.