140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:06]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það hafi verið nauðsynlegt að tryggja innstæður umfram það sem tilgreint var í lögum. Það hefði verið nóg að fara upp í 15 milljónir og þá hefðum við dekkað 95% af innstæðueigendum. Við gengum því miður of langt í þessari innstæðutryggingu og munum í framtíðinni sjá afleiðingar þess, m.a. í mikilli skuldabyrði af vaxtagreiðslum ríkissjóðs.

Endurreisn bankakerfisins er hluti af efnahagsáætlun AGS sem þýðir með öðrum orðum að hún er gerð með vilja og jafnvel í samræmi við ráðleggingar sjóðsins. Hv. þingmaður samþykkti þennan samning við AGS þannig að mig langar til að vita hvort hann sé ánægður með framvindu hans varðandi endurreisn bankakerfisins. Mig grunar að sjóðurinn hafi samþykkt þetta eignarhald vogunarsjóða á nýju bönkunum, að það hafi verið gert með vitund og vilja hans.