140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er ekki lagaleg ríkisábyrgð á innstæðum, það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, en í raun er ríkisábyrgð á öllum innstæðum. Það sjáum við alveg sérstaklega núna við fall SpKef og Byrs þar sem ríkið leggur til, eins og hv. þingmaður minntist á, um 30 milljarða til að jafna út efnahagsreikning þessara tveggja sparisjóða.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann tilbúinn að brjóta jafnræðisregluna? Hann tók þátt í því að tryggja að innstæður væru tryggðar að fullu eftir að viðskiptabankarnir hrundu og það hefur reyndar oft gerst að innstæður hafa aðeins verið tryggðar að fullu hjá þeim bönkum sem falla fyrst, sem eru yfirleitt stærstu bankarnir. Þegar seinni hrina bankahruna verður í fjármálakreppu, og þá eru það yfirleitt sparisjóðirnir, gefst ríkið upp á því að jafna út efnahagsreikningana, þ.e. leggja þeim þrotabúum til fjármagn sem eiga ekki fyrir innstæðunum vegna þess að eignir þeirra hafa rýrnað of mikið.