140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[15:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp sem felur það í sér eins og fram hefur komið í umræðunni að stórauka fjármuni sem Ísland leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til, þetta er eins og hlutafjáraukning í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta eru engar smáfjárhæðir, við erum að tala um 37,2 milljarða í aukningu.

Ég verð að segja, frú forseti, áður en ég fer efnislega í málið að maður er að verða svolítið þreyttur á því þegar hv. stjórnarliðar tala um að stjórnarandstaðan sé að hindra bætt og breytt vinnubrögð á Alþingi Íslendinga. Miðað við stærð þessa frumvarps sem við erum að ræða vil ég segja að beinlínis er verið að reyna að lauma því í gegnum þingið án nokkurrar umræðu. Því til staðfestingar, frú forseti, vitna ég til þeirra dagsetninga hvenær þessu máli var dreift, hvenær mælt var fyrir því og hvaða dagur er í dag.

Því var dreift 21. nóvember. Síðan var mælt fyrir því 8. desember. Fyrir viku var mælt fyrir þessu máli sem felur í sér 37,2 milljarða kr. aukningu á greiðslum úr Seðlabanka Íslands, úr ríkissjóði, til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Vaninn með svona mál er að þau fari til nefndar og þaðan til umsagnar hjá fyrirtækjum, samtökum margs konar, m.a. félagasamtökum. Ekki hafa borist neinar umsagnir um þetta mál vegna þess að umsagnartíminn er ekki liðinn. Nú á að lauma því hér í gegn rétt fyrir þinglok án þess að nokkrar umsagnir berist um málið. Ég held að þessi vinnubrögð séu akkúrat þau vinnubrögð sem hv. þm. Lúðvík Geirsson gagnrýndi hér í morgun, þ.e. að vinnubrögð væru ekki nægilega fagleg á Alþingi. Það að lauma svona málum í gegn er algjört hneyksli og má alls ekki gerast.

Víða erlendis hefur komið fram gríðarleg gagnrýni á þetta mál. Í Þýskalandi varar þýski seðlabankinn mjög við því að sambærilegt frumvarp sem þar er til meðferðar, sem felur í sér 3.200 milljarða aukningu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, verði samþykkt. Það er alls óvíst hvernig því reiðir af í þýska þinginu. Menn hafa miklar áhyggjur af því að þessar fjárhæðir muni ekki duga til og vilja fara mjög gaumgæfilega ofan í þetta þar. En er það svo í íslenska þinginu frá stjórnarmeirihlutanum og hjá ríkisstjórninni? (TÞH: Nei.) Nei. Þessu frumvarpi á að lauma í gegn án þess að það sé rætt, án þess að neinar umsagnir berist um það og líklegast án þess að nokkrir gestir komi til að fjalla um þetta mál í nefndinni fyrir utan ráðuneytið og Seðlabankann. (TÞH: Hneyksli.) Það er algjört hneyksli þegar við erum að tala um þetta háar fjárhæðir.

Það sama er í Bandaríkjunum, miklar efasemdir eru á bandaríska þinginu um hvort samþykkja eigi þessa hlutdeild Bandaríkjamanna í aukinni fjárveitingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í Bretlandi eru sömu deilurnar í gangi, menn hafa sömu áhyggjur þar af því að vita ekkert í hvað þessir fjármunir nákvæmlega fara, hvort þetta sé nóg, og hafa enga vissu fyrir því að ekki sé verið að kasta þarna stórum fjárhæðum inn í einhvern pott sem enginn veit hvað verður um og jafnvel þurrkast upp mjög fljótt.

Til hvers á síðan að nota þessa peninga? Jú, frú forseti, öllum er ljóst að mörg þjóðríki glíma við gríðarlega erfiðleika. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bíða mörg stór verkefni, þá getum við ekki síst tekið miklar fréttir sem hafa verið undanfarið af evrusvæðinu og Evrópusambandinu þar sem sá gríðarlegi vandi bíður Evrópusambandsins að leysa úr skuldavandanum og leysa úr þeim vanda sem við blasir vegna evrunnar. Er það ekki svolítið hjákátlegt, frú forseti, að það eigi að lauma í gegn frumvarpi um hækkun á greiðslum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins upp á 37,2 milljarða kr. til að nota til að bjarga evruríkjunum? Var það ekki í gær, frú forseti, sem Evrópusambandið tilkynnti að það ætlaði að stefna íslensku þjóðinni fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-deilnanna? Ég man ekki betur. Daginn eftir erum við að ræða þetta mál hér.

Eigum við að rifja upp hvernig Evrópusambandið býr sér til vopn til að berja á Íslendingum í makríldeilunni? Og við erum að fara að samþykkja 40 milljarða kr. fjárveitingu, órædda á Alþingi Íslendinga, sem á síðan að nota til að bjarga þessum evruríkjum. Það getur ekki gengið lengur hvernig ríkisstjórnin gleypir í blindni allt sem kemur frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Maður fer að velta fyrir sér hvort ekki sé bara rétt sem margir halda fram, að íslenska ríkisstjórnin sé orðin svo samdauna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að hún sjái varla muninn og leiti fremur til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en nokkurra annarra aðila með ráðleggingar varðandi stór eða lítil mál.

Öll munum við hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom fram við skuldsett heimili og setti sem algert grundvallarskilyrði að ekkert væri gert í almennum skuldaleiðréttingum í þágu heimilanna. Ríkisstjórnin hlýddi auðvitað því kalli. Nú ætlum við Íslendingar að fara að auka framlagið inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eftir það sem á undan er gengið — um tugi milljarða króna.

Það væri nær, frú forseti, að eyða einhverju af þessum fjármunum til skuldaleiðréttinga heimilanna. Í stað þess að horfa upp á þetta væri nær að skuldsett heimili sem hafa mátt þola útreið hjá sitjandi ríkisstjórn, vil ég segja, fengju eitthvað af þeim fjármunum sem hér um ræðir. En, nei, allt kemur fyrir ekki, það á að samþykkja þetta í algjörri blindni án þess að þetta sé rætt á nokkurn hátt.

Það er með ólíkindum að við skulum lesa um það í erlendum fjölmiðlum að ráðherrar í erlendum ríkjum hafi áhyggjur af þessu máli, í hvað fjármunirnir fari, að þarna gætu glatast gríðarlega háar fjárhæðir, að þetta þurfi að ræða betur og skoða gaumgæfilega. Menn vilja vita nákvæmlega í hvað þessir fjármunir fara en íslenska ríkisstjórnin spyr einskis. Hún spyr engra spurninga og ríkisstjórnarmeirihlutinn virðist ekki hafa nokkurn áhuga á að ræða þetta mál, hvorki í þingsal né nefndum Alþingis.

Fyrr í dag var mælt fyrir meirihlutanefndaráliti. Ég gat ekki betur séð en að það hefði tekið um 30 sekúndur að mæla fyrir því. Enginn hv. stjórnarþingmaður tekur hér þátt í umræðum. (REÁ: Hneyksli.) Það er algjört hneyksli þegar um svona háar fjárhæðir er að ræða, 37,2 milljarða kr., sem er laumað inn í þingið bakdyramegin á síðustu metrunum og ætlast til að þingheimur samþykki blindandi að svona sé unnið.

Í hvað fara þessir peningar? Í hvað fara þessir fjármunir og hvað munum við Íslendingar fá til baka af þeim? Þetta eru grundvallarspurningar sem þarf að spyrja. Þingmenn og ráðherrar í erlendum þjóðríkjum spyrja í það minnsta þessara spurninga. En hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra spyrja einskis og þegar okkur berast fréttir erlendis frá af vandræðum á evrusvæðinu í Evrópusambandinu rís hæstv. utanríkisráðherra upp og segir: Evran mun koma sterkari út úr þessu öllu saman. Og hann er aðhlátursefni í fjölmiðlum erlendis, aðhlátursefni í fjölmiðlum í Þýskalandi og víðar. Auðvitað sjá allir að evran kemur ekki sterkari út úr þeim raunum sem hún er í.

Það er alveg sama hvar gripið er niður hvað þessi mál snertir, evruna, ESB, sýn íslensku ríkisstjórnarinnar og vilja til að kynna sér málin, ríkisstjórnin er algjörlega lokuð í eigin heimi. Hér er kominn hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, og hann er einmitt af sama skóla og hæstv. utanríkisráðherra, algjörlega lokaður í sínum heimi gagnvart þeim mikla vanda sem blasir við evrusvæðinu og Evrópusambandinu. Það væri nær hjá hv. þingmanni að skoða hvers menn eru að spyrja. Réttur meiri hluti frönsku þjóðarinnar telur að það hafi verið rangt hjá Sarkozy Frakklandsforseta að samþykkja þann pakka og breytingar sem var verið að gera. Um helmingur þýsku þjóðarinnar telur það rangt og ekki þjóna hagsmunum Þýskalands að vera í Evrópusambandinu lengur. Svona getum við rakið okkur áfram um alla álfuna.

Í síðustu viku voru teknir 40 milljarðar evra út úr grískum hraðbönkum. Fyrir síðustu helgi komst á kreik orðspor í gegnum Twitter-vefsíðuna að banki væri að fara í þrot í Lettlandi. Allir hraðbankar tæmdust í Lettlandi. Hefur íslenska ríkisstjórnin áhyggjur af þessu? Nei. Hún heldur að evran muni koma sterkari út úr þessu öllu saman og segir að aldrei hafi verið eins gott fyrir Íslendinga að standa í að sækja um aðild að Evrópusambandinu og núna. Ef þetta er ekki það sem maður kallar að neita að horfast í augu við raunveruleikann veit ég ekki hvað það er.

Frú forseti. Það er mjög alvarlegt þegar við sjáum þetta gerast ítrekað. Það er mjög alvarlegt þegar þingnefndir og meiri hluti þeirra sem stýra þeim þingnefndum er ekki tilbúinn að fara ofan í mál og skoða þau gaumgæfilega. Í nefndarstarfinu á Alþingi á að kafa ofan í málin og svara þeim spurningum sem meðal annars virðist sem erlendir þingmenn og erlendir ráðherrar spyrji, þeir sem gæta hagsmuna þjóðríkja, hagsmuna sinna eigin ríkja. Hver er í hagsmunagæslu fyrir Ísland? Ekki er það íslenska ríkisstjórnin. Hún flýtur sofandi að feigðarósi og maður skyldi ætla að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra mundu taka upp breytt og ný vinnubrögð hvað þetta snertir og væru tilbúnir að horfast í augu við raunveruleikann. Þessir ágætu hæstv. ráðherrar áttu sæti í hrunstjórninni og þurftu að horfa upp á það þá að vera ekki tilbúnir að horfast í augu við raunveruleikann, vera ekki tilbúnir að skynja þau hættumerki sem verið var að tala um úti um allan heim. Þá var sagt: Nei, það er ekkert að á Íslandi.

Maður hefur það svolítið á tilfinningunni að það sama sé upp á teningnum nú. Þegar hæstv. forsætisráðherra er spurð í fjölmiðlum hvort hún hafi ekki áhyggjur af efnahagsvandanum í heiminum og í Evrópu og því sem er að gerast á evrusvæðinu eins og ég rakti áðan segir hæstv. forsætisráðherra: Ríkisstjórnin fylgist vel með gangi mála. Trúir því einhver að hæstv. forsætisráðherra sé að fylgjast vel með gangi mála á evrusvæðinu? Trúir því einhver? (TÞH: Nei.) Nei, það trúir því ekki nokkur einasti maður. (Gripið fram í: Hún sjálf kannski.) Það trúir því ekki nokkur einasti maður. (Gripið fram í.) Þetta er manneskja sem daglega er leiðrétt í fjölmiðlum um brottflutning Íslendinga af landi brott og um efnahagsmál. Reynslan sýnir okkur að íslenska ríkisstjórnin hefur í þessum stóru og veigamiklu málum, sérstaklega forusta hennar, oft og ítrekað verið sofandi á verðinum. Því miður virðist hið sama vera að gerast í þessu máli. Það getur ekki gengið að fjárskuldbinding upp á 37,2 milljarða — þetta eru engar smáfjárhæðir — fari svona í gegnum Alþingi Íslendinga. Það er mælt fyrir málinu 8. desember og nú, viku síðar, á að klára það frá þinginu án þess að nokkur aðili hafi veitt umsögn um það, yfirleitt er umsagnartími um mál tvær vikur, og án þess að það blasi við að það liggi neitt á málinu, að það liggi á því að samþykkja þetta á seinustu dögum þingsins.

Maður horfir á erlendar fréttastöðvar, BBC, Sky News o.fl., og þær eru yfirfullar af fréttum af vanda á evrusvæðinu, skuldavanda heimsins, og ég hef stundum velt fyrir mér hvað sé að gerast. Írar eru hugsanlega að fara að prenta gjaldmiðil sinn aftur. Hvað er að gerast? Íslenskir ráðherrar fara hins vegar algjörlega sofandi að þessu og maður veltir fyrir sér hvort ekki væri ráð að ríkisstjórnin fengi eitthvert fréttayfirlit einu sinni í viku af því sem er að gerast erlendis.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra var í Brussel á dögunum var hann spurður hvort hann hefði ekki áhyggjur af því sem væri að gerast á evrusvæðinu, hvort það væri jafnvel ekki bara skynsamlegt að leggja Evrópusambandsumsóknina til hliðar við núverandi aðstæður og einbeita sér að því sem skipti máli, ná atvinnulífinu í gang, ná hagvextinum hér af stað, stoppa brottflutninginn frá landinu og hjálpa fjölskyldunum og fyrirtækjunum að komast á fót. Þá segir hæstv. utanríkisráðherra: Það hefur aldrei verið vitlausara en núna að leggja ESB-umsóknina til hliðar. Í umræðum fyrir hálfum mánuði sagði hann að nú væri gott að semja við ESB því að nú væri Evrópusambandið á hnjánum að bíða eftir Íslendingum. Drottinn minn dýri, segi ég nú, með leyfi frú forseta.

Viku síðar nær breska heimsveldið ekki fram neinum undanþágum í viðræðum við Þýskaland og Frakkland þannig að Bretar sjá sig tilknúna að taka ekki þátt í því samkomulagi. Reyndar hafa fleiri þjóðríki lýst efasemdum. Það er alls óvíst hvað gerist í Svíþjóð. Þar er minnihlutastjórn og Reinfeldt forsætisráðherra hefur lýst því yfir að það sé alls óvíst að það samkomulag fari í gegnum sænska þingið. Í Danmörku hefur danski utanríkisráðherrann sagt að hann sé á móti þessu samkomulagi og danska þjóðin vill þjóðaratkvæði um það. En hvað er verið að gera þar í landi? Jú, danski forsætisráðherrann sagði við utanríkisráðherrann að það væri mikilvægt að við kynntum okkur þetta fyrst, sæjum nákvæmlega hvað væri að gerast og hvað væri fólgið í þessu samkomulagi sem verið var að ræða í Evrópusambandinu. Danski utanríkisráðherrann var ekki búinn að kynna sér þetta. Sá íslenski, hæstv. Össur Skarphéðinsson, var auðvitað búinn að kynna sér það nægilega vel til að geta lýst yfir stuðningi við það einn, tveir og þrír. Og líka hæstv. forsætisráðherra. Það verður þó að telja hæstv. fjármálaráðherra til tekna að hann lýsti smávægilegum efasemdum um þetta samkomulag, en forustumenn Samfylkingarinnar lýstu því yfir að þetta væri að bjarga heiminum, þetta væri að bjarga Evrópu og sýndi að það væri búið að bjarga evrunni. Svo komu skósveinarnir Gylfi Arnbjörnsson hjá ASÍ og fleiri og tóku í sama streng. (TÞH: Við sjáum hverjir eiga að borga núna.) Síðan sjáum við, eins og hv. þingmaður kemur inn á, hverjir eiga að borga þetta samkomulag. Það eru meðal annars íslenskir skattgreiðendur. Þetta sjá Bretar og meira að segja Þjóðverjar sjálfir eru farnir að sjá að það borgar sig að spyrja spurninga áður en gjörningurinn fer í gegn.

37,2 milljarðar eru engar smáfjárhæðir og eiga ekki að fara í gegnum Alþingi Íslendingar til samþykktar án þess að búið sé að ræða málið, skoða og spyrja þeirra spurninga sem kollegar okkar spyrja í öllum helstu löndum heimsins.