140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[18:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ágætisræðu. Þetta eru miklar skuldbindingar sem við erum að gangast undir ef þetta frumvarp verður samþykkt, 37,2 milljarðar. 9,3 milljarðar fara strax úr gjaldeyrisvarasjóðnum þó svo að það megi reyndar bókhaldslega telja það áfram til gjaldeyrisvarasjóðs vegna þess að íslenski Seðlabankinn getur dregið á þá upphæð í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Síðan eignast Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 27 milljarða sem innstæðu í Seðlabanka Íslands eða í einhverju formi, mér skilst að Seðlabankinn geti borgað þetta með víxli líka og í krónum.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann að, er þessi upphæð sem ég furða mig á, 37,5 milljarðar kr. Hún er 5 milljörðum hærri en Icesave-samningurinn svokallaði sem gekk einmitt út á skuldbindingu þar sem menn voru ekki alveg vissir hver endanleg niðurstaða yrði. Mig langar til að spyrja hv. þingmann til hvaða ráða við eigum nú að grípa. Hvað væri það besta í stöðunni, akkúrat núna, að hennar mati? Hvernig ætti Alþingi að afgreiða þetta mál þannig að sómi væri að?