140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að gera góða grein fyrir þeim upplýsingafundi sem við stóðum fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd nú í kvöldverðarhléi þar sem farið var yfir þetta mál með fulltrúum Seðlabankans. Það er rétt, sem fram kemur hjá hv. þingmanni, að í framhaldinu munu fulltrúar bankans skila ítarlegri skriflegum upplýsingum til nefndarmanna, sem ég treysti að muni hjálpa mönnum við að móta afstöðu til málsins.

Ísland var eitt af 29 ríkjum sem voru stofnaðilar að sjóðnum. Hann hefur gegnt lykilhlutverki, held ég mér sé óhætt að segja, í því að efla heimsviðskiptin, auka á frjálsa verslun og stuðla að jákvæðri hagþróun í heiminum. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort sú umfjöllun sem þegar hefur farið fram sé ekki á þann veg að það auki líkur á því að á endanum, hvenær svo sem það verður, takist góð samstaða um þetta mál hér í þinginu.