140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður áhugavert að heyra seinni hluta svarsins hjá þingmanninum í seinna andsvari hans. Mér finnst þetta skipta gríðarlega miklu máli varðandi þau 75% sem geyma á í Seðlabanka Íslands. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur raunverulega heimild til að sækja þá peninga þegar honum hentar og ríkissjóður gefur hér út að við séum orðin þrautavarasjóður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, svo fáránlegt sem það nú er því að við erum með okkar gjaldeyrisvaraforða að láni hjá sömu stofnun. Það er orðin mikil hringavitleysa hvernig þetta er afgreitt hér og vaxtamunurinn er náttúrlega alveg einstaklega óhagstæður okkur. En eins og við vitum ætlaði þessi sjóður ekki að koma okkur til bjargar í hruninu fyrr en lönd Evrópusambandsins væru búin að gera einhverjar kröfur um Icesave og fleira.

Fær íslenska ríkið einhverja þóknun fyrir að gefa þetta leyfi hér? Og hvað varðar þá 28 milljarða sem geymdir eru í Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn getur raunverulega sótt hvenær sem er, fáum við vaxtatekjur af þessu fé frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Þó að þetta sé útfært á þann hátt í þessu frumvarpi að um íslenskar krónur sé að ræða þannig að ekki sé gengið á gjaldeyrisvaraforða okkar þá er það náttúrlega svo ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir kröfu um að við borgum þetta til þeirra eða þeir taka þetta að láni hjá okkur. Lítur þingmaðurinn ekki svo á að þá þurfi að ganga enn frekar á gjaldeyrisvaraforðann því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn getur ekki notað íslenskar krónur til að lána öðrum ríkjum? Er þetta bara ekki beint útstreymi af gjaldeyrisreikningum landsmanna úr Seðlabankanum sem hvergi finnst og hvergi er til?