140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[22:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Ég vildi spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Þetta frumvarp hefur ekki verið mikið rætt í þinginu og auðvitað er það fyrir neðan allar hellur að við séum að ganga frá málum af þessari stærðargráðu með hraði á þessum tíma, en er einhver hætta á því við samþykkt þessa frumvarps að það muni hafa áhrif á fyrirkomulag reglubundinna fólksflutninga á ferðamannastaði eða flugstöðvar? Er einhver hætta á því?

Ég veit ekki betur en að menn hafi verið sáttir við ferðir á vinsælustu ferðamannastaðina og þá sérstaklega flugstöðina og hvernig þeim málum hafi verið fyrir komið. Ég held að enginn geti haldið öðru fram en að þar sé samkeppni sem er af hinu góða fyrir fólkið sem nýtur hennar.

Síðan er hitt: Ef farin verður sú leið að vera með einkaleyfisleiðir á almenningssamgöngum á rekstraraðili þá ekki rétt á 85% af olíugjaldinu úr ríkissjóði? Er það ekki réttur skilningur? Ég efast ekki um að hv. nefnd hefur farið vel yfir það því að það mundi kalla á útgjöld frá ríkissjóði í tengslum við þetta mál.