140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[11:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Breytingartillagan sem ég lagði fram var felld en hún gekk út á það að til dæmis rannsóknarnefndir Alþingis sem Alþingi skipar, umboðsmaður Alþingis og fyrri ríkisstjórnir kæmust í þær hljóðupptökur sem um ræðir innan 30 ára. Það er afar einkennilegt. Nú er verið að leggja til frestunarákvæði, hinar svokölluðu lagabætur, vegna þess að frumvarpið var ekki nógu vel unnið þegar það kom inn í þingið. Verði þessi tillaga ekki samþykkt kemur fram í fylgiskjali með frumvarpinu að ríkisstjórnin hefur ekkert val um hvort fundir hennar verði hljóðritaðir (Gripið fram í: … ekkert að fela …) og að vanræksla á að sinna þeirri skyldu geti varðað forsætisráðherra refsingu þannig að það sé sagt hér út á hvað þetta gengur. Þetta gengur út á öryggi ríkisins og ekkert annað, en hér voru sett lög í vor sem gengu út á að forsætisráðherra gæti sætt refsingu. (Gripið fram í: Leyndarhyggja Framsóknar.) (Forseti hringir.) Svo hefur íslenska þjóðin ekki einu sinni heilsu til að sjá áramótaskaupið tvisvar í viku (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Leyndarhyggja Framsóknar.) þegar ráðherrafundir eru haldnir. [Hlátur í þingsal.]