140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki að spyrja að örlæti hv. stjórnarmeirihluta í þinginu. Milli síðustu umræðna hækkuðu ráðstöfunartekjur þeirra sem höfðu 230 þús. í laun um hvorki meira né minna en 0,15% en að sjálfsögðu hækkuðu skattar þeirra á milli ára. Aðrir fengu minna og núna er vissulega stigið skref í rétta átt hvað varðar innanlandsflugið og dísilskattana. Ég vek athygli á því að hérna er fyrst og fremst verið að hliðra til á milli umræðna þannig að þetta er álíka eins og settur yrði ósanngjarn 100 kr. skattur á einstakling og hann fengi krónu í afslátt eða eitthvað slíkt. Þetta er svo sem skref í rétta átt en við skulum ekki týna okkur í fagnaðarlátunum. Þessi bandormur sem einn hv. þingmaður hefur nefnt réttilega frekar kyrkislöngu er gott dæmi um þann vítahring sem við erum komin í. Við erum hér með skatta sem eru að kæfa atvinnulífið, kæfa framtak fólksins í landinu, og gera það að verkum að við fáum ekki efnahagslífið af stað og afleiddar tekjur af því. Menn þurfa alltaf að sækja dýpra í vasa almennings vegna þess að kakan stækkar ekki.

Einn skattur hljómar kannski vel í eyrum einhverra, auðlegðarskatturinn, einn fjölmargra skatta sem lítið hefur verið ræddur. Hann hefur þá sérstöðu að hann er bara á eignir en ekki tekjur. Almenna reglan er sú að þetta er ekki praktíserað og ef þetta er einhvers staðar, eins og á Spáni, eru samt sem áður fyrirvarar um að heildarskattlagning getur ekki verið meiri en sem nemur ákveðnu prósenti á tekjur og þá eru allir skattar lagðir saman. Þessu er hins vegar ekki svona farið á Íslandi og þetta gerir það að verkum að Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður vakti á því athygli að það væri lítill, ef nokkur, munur á þessu og þeim sköttum sem austur-þýskir kommúnistar settu á eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Það voru ekkert annað en eignarnámsskattar og svo sannarlega höfum við fengið að heyra dæmi þess að fólk hefur þurft að selja eignir sínar til að greiða skattinn.

Sömuleiðis voru endurskoðunarfyrirtækin sammála um að nú væri fólk að undirbúa það að flytja úr landi vegna þess að það teldi sig ekki geta greitt þennan skatt eða teldi betra skattumhverfi annars staðar. Nú kynni einhver að segja: Er það ekki bara allt í lagi, þetta er ríkt fólk, er ekki fyrir neðan allar hellur að þetta fólk vilji ekki greiða þennan skatt? Gallinn er bara sá að tapið af því að þetta fólk verði ekki hér og greiði skatta af öðrum eignum sínum, ef um slíka skatta er að ræða, og veltuskatta af eyðslunni mun koma verst niður á þeim sem þurfa á velferðarkerfinu að halda. Þetta er ekkert flóknara en það.

Ég er með raunveruleg dæmi sem ég fékk frá endurskoðunarfyrirtækjum. Annað þeirra er svona: Heldri maður sem greitt hefur lítið í lífeyrissjóð en haldið utan um lífeyri sinn í ýmsum eignum greiðir það mikinn auðlegðarskatt að hann hefur ákveðið að flytja af landi brott. Flutningurinn er auðveldur enda er hann einn í heimili og hættur að vinna. Með því að flytja af landi brott sparar hann sér tæpar 40 milljónir í auðlegðarskatt. Þessa ákvörðun tók hann eftir að ljóst varð að álagning auðlegðarskatts yrði framlengd um tvö til þrjú ár. Þessi einstaklingur gæti ílengst erlendis og ef svo færi mundu íslensk yfirvöld einnig fara á mis við greiðslu erfðafjárskatts við andlát hans.

Virðulegi forseti. Ef hann hefur greitt 40 milljónir á hann alveg gríðarlega miklar eignir. Gallinn er sá að þegar þessi einstaklingur flytur missum við ekki bara þessar 40 milljónir í auðlegðarskatt. Ég veit ekki hvernig eignir hans eru samsettar en gefum okkur að hann eigi þetta allt saman á bankabók, þessar gríðarlegu háu fjárhæðir, þetta er einstæðingur, og eyði eins og gengur og gerist. Þegar hann notar peningana sína greiðir hann virðisaukaskatt og önnur gjöld og þá erum við að tala um sambærilega upphæð sem almenningur og skattgreiðendur í landinu tapa.

Síðan er annað dæmi. Eldri hjón hafa ákveðið að flytja af landi brott vegna framlengingar álagningar auðlegðarskatts. Hjónin eru bæði hætt að vinna og er annað þeirra með lífeyrisgreiðslur sem eru núna skattlagðar hér á landi. Þau eiga töluverðar eignir erlendis og munu ekki greiða auðlegðarskatt eftir flutning til annars lands. Auk þess verða lífeyrisgreiðslur annars þeirra skattlagðar erlendis en ekki hér á landi eftir flutning. Eins og í fyrra dæminu geta hjónin ílengst erlendis og þá mundi erfðafjárskattur falla til í heimalandinu en ekki á Íslandi sem ella hefði verið. Erfðafjárskattur er um 10%.

Þetta eru dæmi um það sem getur gerst þegar menn setja á skatta og segja: Heyrðu, hérna er breitt bak og við skulum virkilega ná til þess. Það mun hins vegar gera það að verkum að þeir sem hafa ekki jafnbreið bök munu tapa á því þegar upp er staðið. Það er líka afskaplegur holur hljómur þegar stjórnmálamenn verja skattinn og telja hann eðlilegan, blása á allar athugasemdir sem koma frá lögfræðingum sem benda á stjórnarskrárvarinn eignarrétt og annað slíkt. Þeir sömu stjórnmálamenn og tala svona setja ekki sínar eigur í auðlegðarskattsstofninn. Þeir aðilar sem hafa verið lengi á þingi, voru og eru jafnvel ráðherrar og hafa verið í langan tíma, eiga eignir sínar í lífeyrisréttindum. Þau velta auðveldlega á tugum og jafnvel hundruðum milljóna. Þessar eignir eru miklu öruggari en hlutabréf, fasteignir eða annað slíkt því að þetta eru lögbundin réttindi sem eru svo sannarlega stjórnarskrárvarin og það er óskiljanlegt, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn skuli sleppa sjálfum sér við auðlegðarskattinn.

Hér tók ég dæmi um einstakling sem hefur væntanlega ekki getað greitt í lífeyrissjóð, það gátu ekki allir gert það, og hann hefur verið með sinn lífeyrissjóð annars staðar eins og er mjög algengt með sérstaklega eldra fólk sem greiðir þennan skatt núna. Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru að þetta fólk skuli greiða auðlegðarskattinn. Við hins vegar — sumt fólk í hæstv. ríkisstjórn er komið nálægt þessum aldri eða jafnvel á lífeyrisaldur — ætlum ekki að greiða skattinn. Skatturinn er bara fyrir annað fólk. (Gripið fram í: Almenning.) Skatturinn er fyrir almenning en ekki fyrir stjórnmálamenn og embættismenn. Hann er bara fyrir almenning, almenningur skal borga.

Virðulegi forseti. Ef hæstv. fjármálaráðherra trúir á þennan skatt, telur hann réttan og eðlilegan, hefði hæstv. ráðherra átt að setja þær eignir sem hann á í auðlegðarskattsstofninn. Það sama á við um hæstv. forsætisráðherra og aðra hæstv. ráðherra. Ef þeim finnst þetta sanngjarnt, ef þeim finnst þetta rétt, geta þeir ekki bara tekið almenning og sagt: Þið skuluð borga. Þið sem hafið ekki fengið tækifæri til að greiða í lífeyrissjóð og þurft að spara með öðrum hætti, þið skuluð borga, við ætlum ekki að borga.

Það er ótrúlegt að menn skuli ganga svona fram og það er ótrúlegt hve lítil umræða hefur verið um þennan þátt málsins. Hér er oft talað um sérhagsmunagæslu, ef þetta er ekki sérhagsmunagæsla stjórnmálamanna og embættismanna, hvað er það þá, virðulegi forseti? Þeir hafa skatt á alla aðra en sjálfan sig.