140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla í byrjun að þessu sinni að hæla ríkisstjórninni fyrir þetta frumvarp og hæla þessari tillögu enn og aftur þar sem hér er bætt við stöðum á norðausturhorni eins og Norðurþingi, hinum stóra og mikla Svalbarðshreppi, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi. Það er ósköp eðlilegt og sanngjarnt, en ég spyr aftur um það sama og áðan: Af hverju er til dæmis Seyðisfjörður ekki í þessari flutningsjöfnun? Hvers eiga Seyðfirðingar að gjalda? Það eru 740 kílómetrar frá höfuðborgarsvæðinu Reykjavík og austur á Seyðisfjörð.

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera eitthvað annað á bak við þetta. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talar um efnislegan rökstuðning fyrir málinu, já, hann er til, hann er á heimasíðum flutningsfyrirtækjanna þar sem sést nákvæmlega hvað kostar að flytja vöru til tiltekinna staða. Þar er verðið hæst fyrir að flytja vöru á þá staði sem lengst er að fara til og þeir eru á Austurlandi.

Ég styð þessa tillögu, virðulegi forseti, með mikilli gleði.