140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

eftirlit Matvælastofnunar.

[13:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það ber að taka alvarlega atburði af því tagi sem hv. þingmaður nefnir, þeir eru alvarlegir og við brugðumst strax þannig við í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þegar hið svonefnda kadmíum-mál kom upp að við kölluðum eftir upplýsingum um það og settum af stað vinnu. Við höfum síðan þegar gripið til aðgerða, gefið út reglugerð sem ekki bara heimilar heldur skyldar stofnunina við slíkar aðstæður til að veita strax upplýsingar í stað þess að bíða með að birta rannsóknaniðurstöður sínar árlega í skýrslu eins og áður var siður. Við erum í framhaldinu að fara yfir lög og reglur sem lúta að þessari framkvæmd og reyna að tryggja að slíkir atburðir endurtaki sig ekki. Þeirri vinnu var ekki lokið þegar saltmálið blessaða kom upp þannig að ýmislegt skemmtilegt kemur nú upp úr pokunum og með nákvæmlega sama hætti höfum við sett vinnu af stað í því máli. Ég fór með minnisblað inn í ríkisstjórn í morgun og upplýsti þar um næstu skref. Það getur snúið að hluta til að sambærilegum hlutum eins og að breyta reglum um upplýsingagjöf og bæta hana. Hún hefur ekki verið í lagi, það er alveg ljóst. Það áttu sér stað mistök í meðferð þess máls og ég hef sjálfur sagt að ég hafi talið misráðið að heimila að nota þær birgðir sem enn voru til staðar þegar upp komst.

Það verða tekin sýni úr þessu salti og allt gert sem hægt er til að upplýsa hvað nákvæmlega átti sér stað. Auðvitað er ævintýri líkast að þessi notkun skuli hafa átt sér stað framan við allra augu í á annan áratug. Það er mikið umhugsunarefni en ég vil leyfa mér að minna á, og er ég ekki með því að afsaka eftirlitsaðilana, að frumábyrgðin í þessum efnum liggur að sjálfsögðu hjá þeim sem flytja inn vöru og selja hana til annarra nota en hún er ætluð til og í næstu umferð hjá þeim sem kaupa slíka vöru og eiga sjálfir að hafa sitt aðfangaeftirlit í lagi en nota vöruna til hluta sem hún er ekki ætluð til. Það léttir þó vitanlega (Forseti hringir.) ekki þeim skyldum og ábyrgðum af eftirlitsstofnununum að standa líka sína plikt.