140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

kaupmáttur heimilanna.

[13:56]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef ekki nákvæmlega þessar tölur við höndina en ég held að hér skipti miklu máli að skoða hvaða tímabil er verið að bera saman. Samanburður yfir lengra árabil sem margir hafa framkvæmt hefur sýnt hið gagnstæða, að kaupmáttur tekjulægstu hópanna hefur varist best í gegnum þessa kreppu. Ef tekin eru meðaltöl frá 2007 til og með 2011 að hluta kemur þetta skýrt í ljós.

Kaupmáttaraukningin sem nú er mæld eftir kjarasamninga á miðju síðasta ári sýnir líka að kaupmáttur tekjulægstu hópanna fer eðlilega mest upp vegna þess að það var eðli þeirra kjarasamninga. Ef ég man þetta rétt var kaupmáttaraukningin á síðasta ári að meðaltali 3,7% en jafnvel 8–9% hjá tekjulægstu hópunum vegna áhrifa eingreiðslnanna sem voru inni í samningunum.

Þar sem ég hef ekkert í höndunum ætla ég ekki að vefengja þessar tölur um samanburð eingöngu milli áranna 2009 og 2010 en ég treysti mér til að fullyrða að myndin er sú sem ég vísa hér til þegar tekinn er lengri tíma samanburður. Þetta kom fljótlega í ljós þegar farið var að rýna í þetta mál. Ég get bent á rannsóknir félagsvísindamanna, ég get bent á rannsóknir sem ríkisskattstjóri stendur fyrir og birtir í sínu tímariti þessu til sönnunar. Þar hefur þetta verið dregið upp mjög skýrt. Þetta stafar fyrst og fremst af tvennu, kjarasamningar hafa verið láglaunamiðaðir í þeim skilningi að krónutöluhækkanir hafa þýtt hlutfallslega hærri hækkun lægri launa en hærri launa og það gerist líka gegnum það að skattkerfið eins og það er nú útfært hlífir lægri launum við skattlagningu umfram það sem áður var (Gripið fram í.) en leggur byrðarnar á hærri laun. Það er víst rétt, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, og ég mundi (TÞH: 37,2% og má vera …) tala … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Ég mundi … (Gripið fram í.) já, ég mundi doka við í tilviki hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar þangað til hann er búinn að fá svör við blaðagrein sem hann birti í gær.