140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:27]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ræði um viðkvæmt mál sem sem betur fer varðar afskaplega fáa. Ég verð að viðurkenna að ýmis sjónarmið takast á í hausnum á mér í því máli. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort það sé skýlaus réttur allra að eignast barn. Er það eitthvað sem samfélaginu finnst vera orðin sjálfsögð mannréttindi að við getum öll eignast börn?

Ég velti líka fyrir mér hugtakinu „velgjörð“. Ég efast ekki um að til eru konur sem myndu vilja ganga með börn annarra hjóna, barn fyrir systur eða vinkonu. Reyndar þekki ég konur sem hafa lýst því yfir af einlægni. En það eru líka til konur, ég þekki líka svoleiðis konur, sem ættu erfitt með að segja nei við systur, frænku eða vinkonu eða jafnvel dóttur þótt þær treystu sér ekki í raun, hvorki líkamlega né andlega, í þann pakka. Hvar er velgjörðin þá?

Umræðan um staðgöngumæðrun hefur snúist mikið um sölu á konum, börnum og kvenlíkamanum. Í þá umræðu ætla ég ekki að fara hér, en vil ítreka að hún er ekkert grín. Þau sjónarmið ber okkur að taka alvarlega.

Ég átti ágætan fund síðastliðið sumar með fulltrúum Staðgöngu, sem er áhugafélag um staðgöngumæðrun, og hlýddi á þeirra sjónarmið sem ég hef samúð með. Í desember átti ég svo athyglisvert samtal við íslenska konu sem hafði tekið að sér að verða staðgöngumóðir. Þessi kona svaraði auglýsingu íslenskra hjóna og fór með þeim í nokkur skipti til útlanda vegna þessa. Í eitt skiptið tókst frjóvgun en meðgöngunni lauk reyndar nokkrum vikum síðar með fósturláti. Ástæður þessarar konu voru hennar eigin og engin velgjörð við einn né neinn. Hún átti eitt barn fyrir en engan mann og hugði ekki á frekari barneignir. Barnið sem hún átti fyrir hafði fæðst fyrir tímann og ástæðan fyrir því að hún tók verkefnið að sér var að hana sjálfa langaði að ljúka heilli meðgöngu. Þessari konu fannst hugmyndin um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni fjarstæðukennd. Hún gat ekki hugsað sér að ganga með barn fyrir einhvern sér nákominn. Henni fannst að þetta ætti að vera hreinræktað viðskiptasamband á milli fullorðins fólks.

Þetta samtal fékk mig til að hugsa málið frá öðru sjónarhorni. Það eru nefnilega svo mörg sjónarmið í þessu sem enn hafa ekki verið fullreifuð. Mörg þeirra eru reifuð í áliti 1. minni hluta velferðarnefndar sem Valgerður Bjarnadóttir þingmaður mælti fyrir áðan. Mér finnst líka rétt að skoða vel það sjónarmið sem kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta sem Eygló Harðardóttir þingmaður mælti fyrir, hvort rétt sé að skoða eða festa í lög viðurlög við brotum á banni á staðgöngumæðrun ef staðgöngumæðrun verður áfram bönnuð.

Mér skilst að á morgun sé okkur þingmönnum ætlað að greiða atkvæði um þetta mál. Í dag ætla ég að halda áfram að hlusta. Ég hef ekki gert endanlega upp hug minn. Ég vona að umræðan verði góð en einhvern veginn efast ég um að ræðumönnum í dag takist að útrýma öllum vafaatriðum eða siðferðisspurningum úr huga mér.

Ég leyfi mér líka að benda á að heimurinn er fullur af börnum, litlum börnum sem enginn á og enginn hugsar um, enginn annast. Er ekki þörf á að við rýmkum frekar lögin um ættleiðingar?