140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði mig svo margra grundvallarspurninga að ég ætla að velja upphafið úr. Ég vil byrja á því að segja að samkynhneigð stríðir ekki gegn siðferðiskennd minni og ég fagna því þegar samkynhneigðum auðnast að eignast börn rétt eins og öllum öðrum.

Þegar kemur að löggjöf sem lýtur að því að nota tæknina við að auðvelda okkur að eiga börn sagði ég að ég væri alls ekki að lýsa því yfir að ég væri á móti allri slíkri löggjöf. Ég var bara að segja að við kynnum að hafa gengið of langt á mörgum sviðum og við eigum alltaf að stíga varlega til jarðar þegar við bindum í lög nýtingu tækninnar til þess að kveikja líf.

Varðandi gjafaegg og gjafasæði vil ég segja að ég er í raun á móti þeirri löggjöf sem heimilar nafnlausa gjöf á sæði og eggjum af því að það er skýlaus réttur barna samkvæmt íslenskum barnalögum og samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að þekkja uppruna sinn. Slíkt eigum við ekki að geta tekið frá börnum með löggjöf. Börn eru ekki réttur, börn eiga rétt. Við skulum líka muna að börn sem verða til verða líka fullorðnir einstaklingar. Ég er komin á miðjan aldur og ég held að fólk standi ekki síður frammi fyrir áleitnum spurningum með aldrinum hvað varðar uppruna sinn og fleira en þegar það er yngra. Við skulum hafa það í huga að þó að við viljum gera pörum eða einstaklingum kleift að eignast börn megum við ekki ganga á rétt þeirra barna sem fæðast (Forseti hringir.) og verða síðar fullorðin.