140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:59]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Skúli Helgason nefndi ýmis álitaefni sem einmitt er getið mjög um og rædd og borin upp í fyrirliggjandi nefndarálitum, fyrst meiri hluta heilbrigðisnefndar á sínum tíma og núna meiri hluta velferðarnefndar. Allt sem hann nefnir er einmitt búið að tiltaka að þessi starfshópur eigi að fara yfir og hafa við þá vinnu til grundvallar faglegt mat og þekkingu, alþjóðlegar rannsóknir og reynslu til að sjá hvernig með sem bestum hætti sé hægt að tryggja traustan lagalegan ramma. Traustan lagaramma um hvað? Þá langar mig einfaldlega að spyrja hv. þingmann svo ég gefi honum dæmi: Finnst hv. þingmanni rangt í eðli sínu ef ég, Guðfríður Lilja, ákveð að ganga með barn fyrir systur mína sem hún síðan ættleiðir og við förum í gegnum mikið og magnþrungið ferli alls kyns vottana um að bæði ég sé fær um að ganga með barnið og þau séu hæfir foreldrar o.s.frv.? Finnst hv. þingmanni, ef rétt er að þessu staðið, eitthvað rangt við þetta í prinsippinu?

Mikið er rætt hér um Norðurlöndin. Þegar við berum okkur saman við þau sést að þau eru mörg hver mun strangari í tæknifrjóvgunarmálum yfir höfuð. Sums staðar er ekki leyft að gefa egg, sums staðar er til dæmis ekki leyft að einhleypar konur fái aðgang að tæknifrjóvgun og svo mætti áfram telja. Ef við eigum að vera í samfloti við Norðurlöndin, eigum við þá að fara til baka (Forseti hringir.) og draga úr stefnu okkar í tæknifrjóvgunarmálum? Að lokum þegar rætt er um Finnland vil ég halda því til haga, þar sem reynsla er komin á (Forseti hringir.) staðgöngumæðrun þar, að það var ekki út af staðgöngumæðrun sem Finnar stigu skref til baka heldur vegna fordóma gagnvart samkynhneigðum foreldrum.