140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:34]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann — vegna þess að hann skoraði á okkur hér í þingsal að svara einhverju um það hvort við hefðum í aðdraganda kosninga rætt þetta mál — hvort hann sé ekki sammála mér um að þetta sé ekki flokkspólitískt mál, að hver og einn verði að kynna sér málin sem allra best og taka síðan afstöðu.

Hér er fyrst og fremst verið að taka afstöðu til þess að fram fari meiri og ítarlegri vinna sem skili frumvarpi hingað inn í þingið. Varðandi það að vera ekki búinn að gera upp hug sinn — sem ég skil mjög vel og ítreka að ég skil líka þá skoðun fólks að vilja þetta ekki þótt ég sé ekki sammála henni — spyr ég hvers vegna hv. þingmaður vill þá ekki fá frumvarp hingað inn til að geta tekið afstöðu, til að opna umræðuna enn frekar.

Varðandi hina opnu umræðu þá hefur einmitt ýmislegt gerst í þessum málaflokki sem ekki hefur fengið umræðu, sannarlega ekki eins mikla umræðu og þetta mál. Þar nefni ég sem dæmi að einhleypar konur fái aðgang að tæknifrjóvgun, sem ég er mjög fylgjandi. Þá vil ég aftur spyrja hv. þingmann um Norðurlöndin, vegna þess að ítrekað er haft á orði hér að við eigum að fylgja þeim og hv. þingmaður kom inn á það: Vill hv. þingmaður þá ganga til baka hérlendis í tæknifrjóvgunarmálum til að við séum á sama stað og Norðurlöndin sem ekki eru eins frjálslynd í þessum efnum og við höfum hingað til verið?

Þá vil ég einnig spyrja um sérfræðingana, vegna þess að mikið er talað um þá. Ýmsir sérfræðingar sem lýsa andstöðu sinni við þetta mál hafa einnig sagt að nú þegar hafi verið gengið of langt. Einn sérfræðingur hefur til dæmis sagt að (Forseti hringir.) hann hafi miklar efasemdir um að varðandi samkynhneigða hefði átt (Forseti hringir.) að ganga jafnlangt og raun ber vitni, hvað þá varðandi einhleypar konur. Eigum við þá alltaf að hlusta á sérfræðingana svokölluðu eða ber okkur ekki líka skylda til að nýta okkar eigin dómgreind? Hv. þingmaður, (Forseti hringir.) eins og kom fram í máli hans, tók ekki mark á öllum sérfræðingunum sem sögðu að samkynhneigðir ættu ekkert endilega að fá (Forseti hringir.) þann rétt sem þeir hafa núna, og það gerði þingið ekki heldur.