140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í þá umræðu sem varð hér áðan. Farið hefur verið ágætlega yfir hvaða stjórnsýsla var viðhöfð þegar þetta kom upp á sínum tíma og hæstv. ráðherra brást við með því að setja lög sem gátu tekið á málinu. Það hlýtur að vera það sem við óskum eftir að sé gert.

Mig langar aðeins að halda áfram að tala um það mál sem ég talaði um í fyrra sinn í dag, þ.e. þá skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra taldi að kallaði á mögulegar breytingar á stjórnarskránni. Hæstv. ráðherra talaði líka um það í því viðtali að völd Íslendinga yrðu svo mikil innan Evrópusambandsins þar sem Íslendingar fengju kannski eitt, tvö, þrjú sæti mögulega af 700 eða 800 á Evrópuþinginu. Hvernig fær hæstv. ráðherra það til að ganga upp, ekki síst í ljósi þess að þeir sem horfa á fréttir frá útlöndum, sem ég efast um að sumir þingmenn geri reyndar, sjá að það eru tvær manneskjur sem stjórna Evrópusambandinu? Það er meira að segja farið að tvinna nafn þeirra saman í eitthvert nafn sem heitir Merkozy, það eru annars vegar Angela Merkel og Sarkozy, Frakklandsstjórinn, sem ráða því hvað gert er í Evrópusambandinu. Man einhver eftir því að forsætisráðherra Möltu eða Danmerkur hafi verið kallaður til til að leysa málefni evrunnar og evrusamstarfsins? Nei, tilkynningar eru sendar um það og hvernig eiga þá Íslendingar að bregðast við því? Dettur einhverjum í hug að það verði hæstv. ráðherra, mögulega Jóhanna Sigurðardóttir, og þingmenn sem dæsa hér frammi í sal sem munu fá það hlutverk að leysa vandamál sem koma upp? (Gripið fram í: Valgerður …) Þetta er ekki svona, virðulegi forseti. Það eru stóru ríkin sem ráða og hæstv. utanríkisráðherra þarf vitanlega að koma hingað, við þurfum að fá að spyrja hann út í þetta einhvern tímann hér í þingsal hvað hæstv. ráðherra meinti með þeim orðum sínum, svipað og hann hefur ekki enn útskýrt hvers vegna hann telur að skipta þurfi um formann í Samfylkingunni. [Kliður í þingsal.]