140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:43]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég skal fúslega játa að ég hef ekki fyllilega gert upp hug minn um það hvort hér er um gott mál að ræða eða ekki. Það er margslungið. Meiri hluti og 1. og 2. minni hluti hafa velt upp mörgum áleitnum spurningum sem þarf að svara áður en við erum tæk til þess að ákveða og festa í lög heimild um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég tel að það ráðist fyrst og fremst af svörunum við þeim spurningum hvort við höfum unnið heimavinnuna okkar eða ekki og tel því að sú breytingartillaga sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og fleiri hafa lagt fram sé farsælasta leiðin og farsælasta skrefið til að stíga við núverandi aðstæður. Ég mun því styðja þá breytingartillögu en legg jafnframt áherslu á að sá starfshópur sem þar er lagt til að verði skipaður vinni hratt og vel þannig að við getum fengið þetta mál aftur inn í þingið á yfirstandandi ári.