140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Það er eitt atriði sem ég staldra við og spyrja hæstv. ráðherra um. Þegar samgönguáætlun var afgreidd vorið 2010 stóð öll hv. samgöngunefnd að nefndaráliti sem þá var skilað. Í nefndarálitinu var sérstaklega tekið fram að það sé ákveðið óréttlæti fólgið í því að tveimur vegköflum sem átti að klára samkvæmt mótvægisaðgerðum 2007 vegna þorskaflaskerðingar sé ólokið. Það var samþykkt á Alþingi að þessi tvö verkefni nytu forgangs við endurskoðunina, þ.e. á 12 ára áætluninni, og yrðu inni á fyrsta tímabilinu. Annað þessara verkefna er vegurinn um Fróðárheiði. Nú vill svo til að í nýrri samgönguáætlun, í 12 ára áætluninni, er þessi vegur ekki einu sinni inni. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að þegar Alþingi hefur ályktað með þessum hætti og samþykkt samgönguáætlun (Forseti hringir.) þar sem taka á sérstakt tillit til þessara hluta eru þeir ekki einu sinni inni á áætluninni?

(Forseti (ÞBack): Nú vil ég biðja hv. þingmann og hæstv. ráðherra að virða tímamörk þegar þau eru ein mínúta.)