140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil leggja áherslu á hér. Í fyrsta lagi gengu fyrri áætlanir í grundvallaratriðum allar úr skorðum við efnahagshrunið. Við þurftum að endurskoða allar okkar áætlanir með hliðsjón af því.

Síðan er hinn þátturinn og hann er sá að þegar skipulagt er til mjög langs tíma kemur til endurmats þegar raðað er samkvæmt mælikvarða forgangsverkefna þannig að þá hreyfist ýmislegt til. Þessi atriði, þeir tilteknu vegir sem hv. þingmaður vísar til, er nokkuð sem eðlilegt er að skoðað verði nánar í meðferð þingnefndar og meðferð þingsins en þetta á hins vegar við um fjölmörg önnur verkefni sem hafa hnikast til í forgangsröðun okkar.