140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða dýralæknisþjónustu um land allt.

[13:48]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er bráðnauðsynleg. Ég held að að baki þessum nýju lögum hafi verið góð markmið, við eigum að virða það, og reyna að vinna að þeim markmiðum. Við sem höfum haldið dýr vitum hversu mikilvægt það er að tryggja góðan aðgang að dýralæknisþjónustu vegna dýravelferðar, atvinnuöryggis og afkomu. Síðan er þetta mál að sjálfsögðu fyrst og fremst byggðamál. Í dreifbýlustu byggðunum skiptir mjög miklu að við höfum öruggan aðgang að góðri dýralæknisþjónustu. Það má ekki fara of mikill tími í ferðalög, bæði getur það verið afdrifaríkt fyrir heilsu gripanna svo og er það náttúrlega mjög kostnaðarsamt líka fyrir þá sem halda dýr. Færð og annað getur skipt máli þannig að við verðum að gæta þess að svæðin verði ekki of stór, við verðum að hafa það í huga að dýrt er að byggja dreifbýlt land eins og Ísland er og til þess þarf að taka ákveðið tillit.

Ljóst er að ekki er hægt að tryggja eða reka dýralæknisþjónustu á dreifbýlustu svæðunum á markaðslegum forsendum, enda hefur verið tekið tillit til þess og verið reynt að gera þjónustusamninga við dýralækna sem búsettir eru úti á landi. Við verðum að gæta mjög vel að starfsskilyrðum þessara dýralækna. Ég hef ákveðnar áhyggjur af að nýliðun í greininni verði ekki næg, við verðum að tryggja að skilyrðin séu þannig að fýsilegt sé að koma til þeirra starfa eftir langt og strangt nám.

Það sem mér finnst skipta máli er að við tölum lausnamiðað og finnum bestu lausnina innan þeirra ramma sem við störfum, bæði lagalega og fjárhagslega. Við þurfum að rýna málið til gagns og vinna saman með hagsmunaaðilum að bestu lausn sem finnanleg er.