140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mat Vegagerðarinnar, og þeirra sérfræðinga sem hv. þm. Kristján L. Möller hefur réttilega verið að mæra í sínu tali, að það sé ekki gott ráð að hefjast handa um stórframkvæmd á borð við jarðgöng nema séð sé fyrir endann á fjármögnun þeirra og framkvæmdinni allri. (KLM: Það eru allir sammála um þetta.) Það eru allir sammála um þetta, segir hv. þingmaður, en þá skulum við líka sjá fyrir endann á fjármögnuninni og það gerum við ekki enn þá. Það er bara staðreynd málsins. Það er alveg sama hvað menn setja upp marga hatta og reyna að draga upp úr þeim kanínur eða eitthvað annað, það breytir ekki veruleikanum.

Ég á hins vegar óskaplega erfitt með að átta mig á því nákvæmlega hvað vakir fyrir hv. þingmanni og hvað hann er að fara með þeim tilfinningaþrungna reiðilestri sem hann hefur hér uppi annað en kannski að gráta áform sem ekki urðu að veruleika í tíð fyrrverandi samgönguráðherra. (KLM: Alltaf jafn málefnalegur.)