140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að útskýra umræðu um Vaðlaheiðargöng í forsætisnefnd og þá skýrslu sem átti að vera svo voðalegt leyniplagg.

Virðulegi forseti. Ég hygg að allir í forsætisnefnd geti staðfest að í hvert einasta skipti sem rætt er um Vaðlaheiðargöng geng ég af fundi forsætisnefndar og tek ekki einu sinni gögn sem er útbýtt þar. Það heitir „vegna vanhæfis“ — sennilega gerði ég það axarskaft að taka að mér að sitja sem annar af fulltrúum ríkisins í stjórn Vaðlaheiðarganga. Ákafinn, áhuginn við að koma einhverju í gang og fylgja eftir þessum metnaðarfullu samþykktum sem gerðar voru í ríkisstjórn 10. desember 2010, var sennilega of mikill hjá mér og fyrir það verður mér sennilega hegnt.

En það er dálítið sérstakt, virðulegi forseti, að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skuli ekki átta sig á því að ég sem hér stend hef gert þetta í forsætisnefnd. Þess vegna hef ég ekki haft neitt tækifæri til að benda forsætisnefnd á eitt eða neitt vegna þess að ég ræði þetta ekki einu sinni við forsætisnefndarmenn. (GLG: Tækifæri til að láta vita af skýrslu ...) Virðulegi forseti. Þessi skýrsla var ekkert leyndarmál, hún var til í ráðuneytinu, upplýsingafulltrúinn hefur lýst því yfir að það hafi sennilega verið mistök að hún var ekki sett á netið. Það var farið með hana í ríkisstjórn og hún var rædd þar um mitt sumar 2010. Hún var send ráðgjöfum Vaðlaheiðarganga. Það hafa allir haft aðgang að þessari skýrslu og það er enn eitt dæmið um hin óheiðarlegu vinnubrögð sem tíðkast, meðal annars af hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrir hönd ýmissa aðila í þjóðfélaginu, sem þetta mál er sett þannig fram. Það er hluturinn, tilgangurinn helgar meðalið.