140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[19:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að nota hluta af tíma mínum til að koma aðeins inn á ákveðna þætti. Til dæmis varðandi stofnbrautirnar eða þá uppskiptingu þá hefur fjármagninu verið skipt í þessa þætti og jafnvel eftir kjördæmum og sú umræða kom hér upp í dag. Þess vegna skiptir máli í hvaða skilgreinda hóp viðkomandi vegur fer og hlýtur sá umferðarþungi sem vegurinn þarf að bera bæði öryggisins vegna og hreinlega getunnar að spila inn í skilgreininguna. Ég tek undir það og hvet ráðherra og Vegagerðina til að skoða það.

Aðeins í sambandi við hafnirnar. Ég kom ekki inn á eitt áðan sem er skortur á tekjum en tekjuskorturinn er verulegur. Hvernig ætlum við að byggja upp hafnirnar? Þeir á Suðurnesjum eru búnir að taka svæðisskipulagið sitt upp og skipta á milli sín hvernig þeir ætla gera það. Það þyrfti kannski að gera í öllum öðrum landshlutum líka. En hvernig fáum við tekjur til að gera þetta á næstu árum? Mætti til dæmis hugsa sér að hluti þess auðlindagjalds sem rennur úr sjávarútveginum renni einfaldlega til viðkomandi hafna í þeim landshluta til uppbyggingar hafna í staðinn fyrir að renna til ríkissjóðs? Væri það ekki skynsamlegri leið, tekjumörkun? Svo að ég nefni það hér.

Aðeins í sambandi við landsskipulagið og það sem ráðherra nefndi. Þetta er ákaflega mikilvægt og stór spurning: Hvernig rímar þetta allt saman við aðra stefnu ríkisstjórnarinnar og við aðalskipulag sveitarfélaganna sem eru þeirra helstu plögg?