140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að fylgja eftir síðasta atriðinu. Að mínum dómi er það þannig að þegar landsdómur tekur afstöðu til frávísunarkröfu þar sem lagt er til að öllum sex ákæruliðunum sé vísað frá og hann kemst að þeirri niðurstöðu að vísa eigi frá tveimur liðum en halda eftir fjórum þá er það efnisleg afstaða hans um að þau mál séu tæk til dóms. Er þá rétt að mati hv. þingmanns að Alþingi taki ákvörðun um að blanda sér í niðurstöðu landsdóms? Er það við hæfi að mati hv. þingmanns?

Hv. þingmaður vísar í ýmsa lögfræðinga sem komast að annarri niðurstöðu en Ólafur Jóhannesson gerði á sínum tíma og segir: Það hefur ýmislegt breyst, m.a. í lögunum um meðferð sakamála. Þá spyr ég: Hvað er það í þeim lögum sem hefur breyst sem hefur beina tilvísun í þetta mál? Ég fæ ekki séð að þar sé neitt sem bendir til þess, þ.e. að þar sé breyting á landsdómslögunum sem vísað er í og sagt: „… eftir því sem við getur átt“, að þá eigi að taka til laganna um meðferð sakamála. Þýðir það virkilega að meginreglum laganna um landsdóm sé vikið til hliðar og lögin um meðferð sakamála taki við? (Gripið fram í.) Það getur ekki verið. (Gripið fram í.) Þau eiga að vera til fyllingar eftir því sem við getur átt. (Gripið fram í.)

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvað er það nákvæmlega í þessum lögum sem hefur breyst sem gerir það að verkum að þau eiga að taka hér yfir en landsdómslögunum vísað til hliðar? (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

(Forseti (SIJ): Ég bið þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð til að halda ræður sínar.)