140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:17]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gerir því skóna að þetta mál sé pólitískt, ég er sammála honum um það. Það varð pólitískt um leið og þessi tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar var lögð fram. Það er enginn að biðja um þetta mál. Saksóknari er ekki að kalla eftir því, landsdómur hefur ekki kallað eftir því, verjendur hins ákærða hafa ekki kallað eftir því. Það er flutt af formanni stjórnmálaflokks sem gerir það að sjálfsögðu pólitískt, það liggur í augum uppi, er það ekki?

Þetta er pólitískt mál, það er það sem ég er að segja og ítreka það að með því að fara að grípa inn í dómsmál eins og tillagan ber með sér hefur það afleiðingar. Það hefur alvarlegar afleiðingar til framtíðar fyrir dómskerfið ef stjórnmálamenn, Alþingi, ætla að grípa inn í mál sem þegar er í ferli með þeim hætti sem hér er lagt til.