140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:06]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem nýr að þessu máli í sölum Alþingis. Ég hef lagt mig fram um að fara vandlega yfir öll gögn þess síðustu daga, þar á meðal niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis, tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherra, þær fræðigreinar og blaðagreinar sem hafa verið skrifaðar um málið, stefnu saksóknara Alþingis, úrskurð landsdóms frá 3. október og að sjálfsögðu þá tillögu til þingsályktunar sem liggur fyrir um afturköllun ákæru.

Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er reynt að færa fram rök fyrir afturköllun ákærunnar. Eftir yfirferð mína liggur ljóst fyrir að ekkert í þeim rökstuðningi felur í sér slíka eðlisbreytingu eða ný sannindi í þessu máli að það kalli á afturköllun eða einhverja breytingu á þeirri samþykkt sem Alþingi gerði á haustmánuðum 2010. Það er eitt að hafa stöðu til að taka mál upp að nýju og leggja fyrir Alþingi, eins og gert er með þessari tillögu, og fá hér efnislega umræðu og annað að geta fært fram sannindi eða rök fyrir því að ástæða sé til að afturkalla fyrri samþykkt. Rökin eru ekki til staðar að mínu mati og því get ég hvorki samþykkt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu né tel ég rétt að taka hana til frekari þinglegrar meðferðar.

Hér hefur komið fram, m.a. í ræðu hv. Atla Gíslasonar, fyrrverandi formanns þingmannanefndar Alþingis, að engar efnisbreytingar hafi orðið í málatilbúnaði eins og hann var lagður fyrir af hálfu nefndarinnar á sínum tíma. Hans mat er að eðlisbreyting hafi orðið þegar niðurstaða afgreiðslunnar lá fyrir í þinginu. Það er pólitísk afstaða, hún er ekki efnisleg. Ákvörðun Alþingis hefur legið fyrir í liðlega 15 mánuði og á þeim tíma hefur málið gengið fram með eðlilegum hætti af hálfu embættis saksóknara og landsdóms.

Eftir ítarlega umræðu og yfirferð og óskir verjanda um frávísun málsins liggur fyrir skýrt álit bæði saksóknara og landsdóms að öll meginefni framkominnar ákæru standi óbreytt. Það er meginatriði þessa máls. Ef ástæða væri til endurskoðunar og/eða afturköllunar væri það ekki nema að fyrir lægi slíkt mat eða niðurstaða af hálfu saksóknara eða landsdóms. Ef einstökum þingmönnum eða þingheimi þótti afgreiðsla þingsins óeðlileg eða málatilbúnaður óeðlilegur að öðru leyti er óneitanlega sérstakt að þær athugasemdir eða viðbrögð hafi ekki komið fram með formlegum hætti á Alþingi fyrr en nú, nokkrum vikum áður en málið verður tekið til lokameðferðar, enda er ljóst af þeirri greinargerð sem fylgir framlagðri tillögu að forsendur málsins hafa á engan hátt tekið þeim breytingum efnislega að hægt sé að færa skýr rök fyrir því að afturkalla fyrri samþykkt.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en þörf er á, öll lykilatriði málsins liggja ljós fyrir að mínu mati. Landsdómur er eini vettvangurinn sem er fyrir hendi til að rannsaka mögulegar sakir ráðherra og um leið mun sú rannsókn skýra ýmsa aðra þætti sem snúa að stjórnsýslu og embættisverkum við stjórn landsins, ekki síst efnahags og fjármála. Okkur ber skylda til að ljúka þessari vinnu allra hluta vegna af fagmennsku og ábyrgð.

Með flutningi þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir og þeirri umræðu og uppákomu sem fylgt hefur í kjölfarið er markvisst búið að gera þetta mál að pólitísku átakamáli sem hefur minnst að segja um stöðu og hlut þess sem sætir málshöfðun fyrir landsdómi. Að afturkalla ákæru og draga þannig til baka fyrri samþykkt Alþingis á þeim marklausu forsendum sem hér eru lagðar fram væri ekki bara óskynsamlegt heldur líka versta pólitíska niðurstaðan fyrir hvort heldur er Alþingi eða hinn ákærða.